Myrkur Games: Nýtt og spennandi tölvuleikjafyrirtæki


„Við vonumst auðvitað til þess að verða með þeim fremstu þegar fram líða stundir.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Við vonumst auðvitað til þess að verða með þeim fremstu þegar fram líða stundir.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Myrkur Games er íslenskt tölvuleikjafyrirtæki, stofnað árið 2016 af þremur tölvunarfræðinemendum, þeim Daníel A. Sigurðssyni, Friðriki A. Friðrikssyni og Halldóri S. Kristjánssyni. Margt spennandi er á döfinni hjá fyrirtækinu, en blaðamaður Stúdentablaðsins ræddi við Friðrik, einn stofnanda fyrirtækisins og Katrínu Ingu Gylfadóttur, sem starfar þar sem þrívíddarteiknari.

Að sögn Friðriks hófst ævintýrið á tölvuleikjanámskeiði í Háskólanum í Reykjavík. „Við vorum þrír að vinna hópverkefni og bjuggum til mjög metnaðarfullan tölvuleik á þremur vikum. Sá leikur er núna notaður í Háskólanum sem dæmi um skemmtilega hugmynd sem ekki er mælt með að framkvæma,“ segir Friðrik og hlær.

„Við unnum mjög vel saman, og í framhaldinu gerðum við saman lokaverkefni í sýndarveruleika. Við unnum að því að finna leið til þess að rekja líkama í sýndarveruleika, og eyddum rúmu ári í það.“

„Við vildum fara lengra með þetta og fórum á marga fundi þar sem útskýrt var fyrir okkur að við myndum ekki græða neitt á þessu. Það leiddi til þess að við fórum að velta því fyrir alvöru fyrir okkur hvað við vildum gera og hvernig við gætum mögulega fengið greitt fyrir það. Við skoðuðum leikjamarkaðinn og reyndum að finna út hvernig við gætum skorið okkur úr fjöldanum og sóttum svo um fyrirtækjastyrk. Að lokum komumst við inn í Startup Reykjavík, réðum tvo starfsmenn og höfum verið á fullri siglingu síðan þá.“

Fá greitt í hlutabréfum

Í dag vinna tíu manns á skrifstofu fyrirtækisins daglega, en að sögn Katrínar koma auk þeirra mörg önnur að starfseminni með hinum og þessum hætti. „Við erum til dæmis með leikara, rithöfund, bardagahreyfingahöfund, bardagameistara, þrjá starfsnema og tónlistar- og hljóðmann, en við komum úr öllum áttum, líklega þó flest úr HR og Margmiðlunarskólanum.“

Friðrik segir starfsfólk fyrirtækisins ekki vera á launum enn sem komið er, en að þau vinni sér inn hlutabréf í fyrirtækinu. „Við ráðum fólk á þeim forsendum að við séum að byggja þetta fyrirtæki upp saman og að okkur langi til þess að búa til eitthvað stórt. Þetta hefur verið staðan í svona eitt og hálft ár núna en við vonumst auðvitað til þess að geta greitt laun sem fyrst.“

Fyrirtækið er eins og er að vinna að leiknum The Darken: Echoes of the End, sem að sögn Friðriks og Katrínar er sögudrifinn tölvuleikur. „Þú spilar sem persóna og vinnur þig í gegnum heim þar sem sagan skiptir miklu máli. Við vinnum mikið með Ísland, og þetta fantasíuelement. Við stefnum á að leikurinn verði til eftir tvö ár, eða vonum það. Síðan sjáum við bara til,“ segir Friðrik.

Hröð vinnubrögð

Katrín er þrívíddarteiknari fyrirtækisins og hannar umhverfið, föt á persónurnar, aukahluti, ásamt því að skanna raunverulega hluti sem svo má nýta í leiknum. Hún segist að sumu leyti vinna á annan hátt en oftast er gert.

„Við getum til dæmis fundið stein úti, skannað hann, og gert tilbúinn fyrir leikinn á um það bil einum degi. Ég veit ekki af neinu öðru fyrirtæki sem gerir þetta svona hratt,“ segir Friðrik. „Þetta er náttúrulega allt byggt á hugmyndum annara. Það er til rosalega mikið af upplýsingum, það þarf bara að leita og finna það sem virkar,“ bætir Katrín við.

Myrkur Games byggði nýlega stærsta „motion capture“ stúdíó á Íslandi. „Það er það eina sinnar tegundar hér á landi. Við komum því fyrir í risastóru herbergi hérna við hliðina á skrifstofunni okkar og settum þetta allt saman upp sjálf, veggfestingar, hljóðeinangrun, dýnur og fleira,“ segir Katrín. Friðrik bætir við að verkefninu hafi verið sýndur mikinn áhugi. „Mörg fyrirtæki hafa haft samband við okkur og vilja fá afnot af stúdíóinu. Okkur langar líka mikið til þess að vera í sambandi við Háskólana og bjóða þeim að fá að nota þetta líka.“

Dyrhólaey borð í leik

Teymið er núna á fullu að undirbúa sig fyrir stærstu leikjaráðstefnu í heimi í Bandaríkjunum eftir nokkrar vikur. „Við erum að búa til spilanlegan bút til þess að sýna þar. Það er mjög skemmtilegt, en við erum að breyta Dyrhólaey í borð í leiknum okkar. Tilgangurinn með því að fara með spilanlega bútinn út er að reyna að fá fjárfesta, en við höfum verið í viðræðum við nokkra undanfarið sem virðast hafa einhvern áhuga, sama hvað það þýðir auðvitað,“ segir Friðrik. Katrín bætir við að þetta sé dýrt verkefni, stórt og til mikils að vinna.

Katrín og Friðrik eru sammála um það að mikil gróska sé í tölvuleikjaiðnaðinum á Íslandi í dag. „Það er mjög margt spennandi í gangi, mörg fyrirtæki eru að spretta upp, og eru þau eins fjölbreytt og þau eru mörg. Við vonumst auðvitað til þess að verða með þeim fremstu þegar fram líða stundir,“ segir Friðrik að lokum.