„Þörf er á aðgerðum núna“

„Það sem vantar í augnablikinu eru minni svartar tunnur svo áherslan sé á flokkunartunnurnar og jafnvel að hafa staði þar sem bara eru flokkunartunnur.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Það sem vantar í augnablikinu eru minni svartar tunnur svo áherslan sé á flokkunartunnurnar og jafnvel að hafa staði þar sem bara eru flokkunartunnur.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Umhverfis- og samgöngunefnd er ein af undirnefndum Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem, líkt og nafnið gefur til kynna, vinnur að umhverfis- og samgöngumálum innan Háskólans. Forseti nefndarinnar er Ásmundur Jóhannsson og  gefur hann innsýn í störf nefndarinnar og þær áherslur sem nefndin telur að ættu að vera ríkjandi í umhverfis- og samgöngumálum innan Háskóla Íslands.

Fjölbreytt verkefni

Meðal þeirra verkefna sem nefndin hefur er að taka við málum frá Stúdentaráði, skrifa ályktanir og koma viðeigandi aðgerðum í gang, en einnig að vinna sjálfstætt að ákveðnum málum. Ásmundur nefnir sem dæmi um verkefni að í upphafi vormisseris hafi nefndin staðið fyrir flokkunarfræðslu við flokkunartunnur í Háskólanum. Þá skrifaði nefndin einnig ályktun um næturstrætóþjónustu Strætó, þar sem mikilvægi hennar fyrir stúdenta var ítrekað, eftir að óvissa hafði skapast um framtíð þjónustunnar á síðastliðnu haustmisseri. Samhliða því voru tilkynningar sendar á viðeigandi kjörna fulltrúa vegna stöðunnar.

Meðal verkefna sem framundan eru á vegum nefndarinnar er þátttaka í norrænum fataskiptimarkaði með Ungum umhverfissinnum og Landvernd í aprílmánuði. Þá segir Ásmundur það mikilvægt að koma á ákveðnu formi í vinnu nefndarinnar sem geti þá haft tengingu milli ára og til framtíðar.

„Skynsamlegt að sækja um grænfána“

„Í haust fór nefndin yfir stefnu Stúdentaráðs í umhverfis- og samgöngumálum þar sem stefnan var uppfærð og sett var upp aðgerðaáætlun. Það sem kom út úr þeirri vinnu var að til að koma ákveðinni festu á umhverfismálin væri skynsamlegt að sækja um grænfána fyrir Háskólann.“

Ásmundur segir að í framhaldinu hafi verið rætt við rektor Háskólans um að fá fjármagn til að sækja um Grænfánann. Í stuttu máli má lýsa Grænfánanum sem alþjóðlegri umhverfisviðurkenningu þar sem þeir skólar sem uppfylla tiltekin skilyrði fá að flagga fánanum, en á meðal skilyrða fyrir fánanum er innleiðing á raunhæfum aðgerðum í umhverfismálum innan skólans og að auka þekkingu nemenda og starfsfólks í umhverfismálum, en margir kannast ef til vill við grænfánann úr grunnskóla. Ásmundur bendir á að Háskólinn á Akureyri hafi nú þegar fengið Grænfána og það sé gott viðmið og aðhald sem felist í því að fá Grænfánann og viðhalda skilyrðum hans.

„Endurvinnslan er ekki 100% fullkomin, en er á réttri leið“

Ásmundur telur Hndurvinnslumálin í Háskólanum vera á réttri leið og að flestir innan Háskólans séu með flokkunina á hreinu, en Umhverfis- og samgöngunefnd hafi einmitt staðið fyrir flokkunarfræðslu við flokkunartunnur Háskólans í upphafi vormisseris. „Miðað við reynsluna af því veit fólk núna nokkurn veginn hvert það á að setja hlutina.“

Ásmundur telur ánægjulegt að sjá breytingar á kaffimálum og ílátum innan Háskólans, en sem dæmi nefnir hann að notkun á einnota matarbökkum hjá Hámu minnkaði um helming eftir að byrjað var að rukka fyrir þá. Einnig eru nú komin ný kaffimál sem eru niðurbrjótanleg. „Þau mega þannig séð fara í moltu og einnig eru hvítu kaffilokin úr maísplasti og mega því einnig fara í lífrænu tunnuna. Það á ekki við um gömlu svörtu lokin og gömlu kaffimálin.“

Helsta ókostinn í endurvinnslumálum innan Háskólans telur Ásmundur vera að breytingar séu að eiga sér stað og upplýsingar um þær berist ekki til stúdenta. Hann telur að þótt að fólk viti almennt hvernig flokka eigi hlutina sé of mikið sem fari ennþá í svörtu tunnuna. Með tilkomu einnota niðurbrjótanlegra mála mætti jafnvel bæta við sérstakri tunnu fyrir slík ílát og lok, drykkjarmál og matarbakka, en nefndin hefur haldið uppi þrýstingi á Félagsstofnun stúdenta um breytingar í þessa veru. „Það sem vantar í augnablikinu eru minni svartar tunnur svo áherslan sé á flokkunartunnurnar og jafnvel að hafa staði þar sem bara eru flokkunartunnur. Endurvinnslan er ekki 100% fullkomin, en er á réttri leið.“

Stór hluti af kolefnisfótspori HÍ eru einkabílar

Fyrir nokkrum árum var kolefnisfótspor Háskóla Íslands greint og kom þar í ljós að 90% af því voru samgöngur tengdar skólanum og þar af var stór hluti einkabílar og svo flugferðir í tengslum við Háskólann. Ásmundur telur að Háskólinn ætti að vera meira vakandi fyrir kolefnisfótsporinu og til að mynda ætti að skoða hvort hægt væri að fækka flugferðum kennara og starfsmanna milli funda til dæmis með fjarfundum. „Markmiðið ætti líka að vera að kolefnisjafna allar ferðir sem farnar eru á vegum Háskólans.“

Sniðugt væri að taka upp U-Pass-samgöngukort

Ásmundur segir það aðkallandi að gera almenningssamgöngur aðgengilegri fyrir stúdenta. Ein leið til þess væri að taka upp kerfi sem nefnist U-Pass, þar sem grunnhugsunin er að stúdentar ættu kost á almenningssamgöngukorti í gegnum stúdentakort sín. Kerfi sem þessi fyrirfinnast í mismunandi útfærslum í Evrópu og Bandaríkjunum. „Oftast eru aðrar samgönguleiðir í boði heldur en Strætó,“ segir Ásmundur og nefnir sem dæmi að ef Borgarlínan kæmi í framtíðinni, sérstakar hjólaleigur og jafnvel nokkurs konar bíladeilikerfi, væru möguleikarnir fleiri fyrir kortanotendur. „Markmiðið er að vinna gegn því að fólk sé eitt í einkabílnum.“

Gott væri þó ef fleiri kæmu að borðinu í slíku kerfi og nefnir Ásmundur að Reykjavíkurborg hafi lýst áhuga á U-Pass-kerfinu, en einnig að Háskólinn í Reykjavík og Landspítalinn væru vænlegir þátttakendur í slíku. „Þetta væri ákveðin lausn við því að á næstu sjö árum, miðað við það byggingarmagn sem fyrirhugað er í Vatnsmýrinni, að þá muni sú mikla umferð sem nú er bara aukast. Þörf er á aðgerðum núna.“ Ásmundur undirstrikar að að baki liggi stór umhverfissjónarmið, en einnig að flestum hljóti að finnast óþægilegt að vera föst í umferðinni á háannatímum. Það sé ekki nóg að færa sig yfir á umhverfisvænni bíla. „Líka er þörf á að breyta samgöngumynstrinu, auka fjölda þeirra sem hjóla og ganga og setja upp hjólaskýli við sem flestar háskólabyggingar.“

Sjálfbær hugsun stúdenta

Að mati Ásmundar eru tvö mál sem mættu fá mesta athygli innan háskólans á sviði umhverfismála, í fyrsta lagi minnkun kolefnisfótspors í gegnum umhverfisvænni samgöngumál og í öðru lagi fræðsla stúdenta um umhverfismál. „Þar sem HÍ er menntastofnun mætti hún koma með sjálfbæra hugsun og meiri umhverfishugsun inn í líf stúdenta, þeir hugsi sjálfbært.“

Þættir í slíkri fræðslu væru flokkun, minnkun á plastnotkun og að hætta að nota einnota ílát. Markmiðið eigi að vera að stúdentar taki upp sjálfbæra hugsun um þau verkefni sem þeir taki að sér í framtíðinni. „Er það umhverfisvænt og sjálfbært fyrir umhverfið, er það sjálfbært fyrir samfélagið og er það sjálfbært fyrir nærumhverfið? Þetta er hinn hlutinn sem háskólinn getur tekið mikinn þátt í.“