„Númer eitt að við séum samkeppnishæf“

Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Skólaárið fram undan

Jón Atli tekur vel á móti blaðamönnum Stúdentablaðsins á skrifstofu sinni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands að morgni 20. september. Þegar við höfum fengið okkur sæti spyrjum við Jón Atla hvernig honum lítist á skólaárið fram undan og hvað sé helst á döfinni. 

,,Mér líst vel á skólaárið og finnst Háskóli Íslands hafa mikinn meðbyr hvert sem ég lít. Það er mjög ánægjulegt að sjá til dæmis fjölgunina á Menntavísindasviði, en bæði við og stjórnvöld höfum lagt mikla áherslu á hana.“ Þá telur Jón Atli vera góðan anda í háskólanum, bæði meðal nemenda og starfsfólks. ,,Við leggjum mikla áherslu á að taka vel á móti nýnemum enda er stórt stökk að koma úr framhaldsskóla yfir í háskóla. Við erum alltaf að vinna að því að gera skólann betri, eftir stefnu sem við köllum í daglegu tali HÍ21.“

HÍ21 er stefna Háskóla Íslands frá árinu 2016 til 2021. ,,Við erum þar með mjög mörg framfaramál í gangi. Áherslumálin í ár og það sem er í innleiðingu er til dæmis að styrkja meistaranámið. Síðan leggjum við áherslu á nýsköpun bæði hjá kennurum og nemendum, en fyrirbæri eins og frumkvöðlakeppnin Gulleggið er eitt af því sem við viljum styrkja enn frekar. Við viljum að háskólinn hafi áhrif á samfélagið. Það er einnig markmið að efla fjármögnun háskólans, en í því hefur náðst mjög góður árangur á undanförnum árum og við vonumst til þess að það muni halda áfram.“

 

Aðgerðir HÍ í loftslagsmálum

Daginn sem viðtalið er tekið stendur yfir allsherjarverkfall fyrir loftslagið á Austurvelli og því er viðeigandi að tala um stefnu HÍ í loftslagsmálum. Kristín Nanna spyr út í stefnu háskólans og hvort farið verði í frekari aðgerðir á skólaárinu.

,,Ég vil byrja á því að hrósa Stúdentaráði fyrir forystu í þessum málaflokki,“ segir Jón Atli. ,,Bæði varðandi loftslagsverkfallið og ýmislegt annað sem Stúdentaráð hefur gert glæsilega.“ Hann snýr sér svo að þeim aðgerðum sem háskólinn hefur gripið til. ,,Á undanförnum árum hefur HÍ verið mjög leiðandi í þessum málaflokki að mörgu leyti. Við höfum verið með virka umhverfis- og sjálfbærnistefnu sem er í endurskoðun og leggjum áherslu á að taka inn heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eins og við framast getum. Við höfum til að mynda lagt áherslu á að útrýma plastflöskum eins og hægt er og erum að skoða það að takmarka ferðir. Við höfum einnig stutt stúdenta, að þeirra frumkvæði, með Grænfánann,“ segir Jón Atli, en háskólinn vonast til þess að geta flaggað Grænfánanum í vor. 

Eitt af því sem hefur verið í deiglunni undanfarið eru bílastæðin við háskólann. ,,Við höfum skipað sérstakan hóp varðandi bílastæðamálinn,“ segir Jón Atli. Sá hópur mun skila tillögum fyrir áramót. Þá stendur starfsfólki til boða að nota rafmagnsbíla og rafmagnshjól sem háskólinn á til þess að fækka ferðum á einkabíl. Þess má geta að einnig eru komin deilihjól við Háskólatorg í gegnum hjólaleiguna Donkey Republic, en sú þjónusta er öllum opin.

Jón Atli nefnir einnig að verið sé að kortleggja kolefnisfótspor HÍ og að unnið sé að því að takmarka matvælasóun. ,,Svo það er margt í gangi.“

 

Staða geðheilbrigðismála innan HÍ

Við snúum okkur að öðrum málaflokki sem snertir ungt fólk. Kristín Nanna spyr út í stöðu geðheilbrigðismála innan HÍ, hver staðan sé á ráðningu sálfræðinga, hvað sé þegar gert í málaflokknum og hvort eitthvað nýtt muni koma fram á skólaárinu.

„Nýja tölur, til dæmis frá Eurostudent, benda til þess að við þurfum að vera á varðbergi í geðheilbrigðismálum. Það er ýmislegt sem við höfum gert þar á undanförnum árum, en við þurfum að gera enn betur. Við höfum til dæmis verið meðsálfræðiaðstoð í gegnum Sálfræðideild og það hefur gengið mjög vel. Við höfum verið með sálfræðing hjá Náms- og starfsráðgjöf og réðum að auki annan sálfræðing í fyrra.“ Þeir sálfræðingar eru báðir í 50% hlutfalli. Jón Atli nefnir að Stúdentaráð hafi bent á að fleiri sálfræðinga væri þörf. „Það stendur til að auglýsa til viðbótar þriðju stöðuna,“ segir hann, en það verður gert á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að þriðji sálfræðingurinn muni hefja störf 1. janúar 2020. „Síðan höfum við verið með hópmeðferðir og tvö HAM-námskeið (námskeið í hugrænni atferlismeðferð) á hverju misseri. Við höfum stutt starf geðfræðslufélagsins Hugrúnar og erum mjög hrifin af því sem það hefur verið að gera. Við tökum geðheilbrigði mjög alvarlega og viljum vinna að því að gera enn betur.“

 

,,OECD-markmiðið er bara varða á leiðinni. Norðurlandameðaltalið 2025 er það sem við stefnum að.“ Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

,,OECD-markmiðið er bara varða á leiðinni. Norðurlandameðaltalið 2025 er það sem við stefnum að.“ Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

40 milljarðar króna til háskólanna

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2020 er gert ráð fyrir 40 milljarða króna framlagi til háskólanna. Í HÍ21 er stefnt að því að fjármögnun Háskóla Íslands verði hliðstæð fjármögnun norrænna samanburðarháskóla. Jafnframt er það markmið ríkisstjórnarinnar að HÍ nái meðal framlagi OECD-ríkjanna á næsta ári. Sólveig spyr hvort það sé líklegt að þessi markmið takist miðað við núverandi frumvarp.

 „Eins og ég sé þetta erum við nokkurn veginn að ná OECD-meðaltalinu. Samkvæmt okkar tölum, miðað við fjárlagafrumvarpið, erum við með 98% af því fyrir 2020. Við getum þakkað ríkisstjórninni fyrir að hafa sett þetta inn í sína stefnuyfirlýsingu og unnið eftir henni. Hækkanirnar á undanförnum árum hafa verið mikilvægar og góðar. Fyrst við erum með 98% getum við sagt að við séum nokkurn veginn með þetta innan skekkjumarka þótt það sé auðvitað eitthvað fé sem vantar upp á. En lykilatriðið er að við viljum vinna með stjórnvöldum að því að halda áfram. OECD-markmiðið er bara varða á leiðinni. Norðurlandameðaltalið 2025 er það sem við stefnum að.“ Jón Atli segir að það hafi reyndar átt að vera komið árið 2020 samkvæmt því sem var ákveðið árið 2011. ,,Þetta hefur dregist. Það vantar töluverða fjármuni upp á að ná Norðurlandameðaltalinu 2025 svo ég held að það þurfi að fara betur yfir málin með stjórnvöldum um hvernig það muni nást. Að mínu mati þarf aðeins að gefa í til þess að ná því markmiði. Það er lykilatriði að við séum samkeppnishæf á Íslandi hvað menntun varðar og að Háskóli Íslands sé vel fjármagnaður. Ég vil þakka stjórnvöldum og þá sérstaklega menntamálaráðherra og forsætisráðherra fyrir einarða afstöðu í málinu. Þetta skiptir íslenskt samfélag gríðarlegu máli.“

Aðspurður hverju það myndi breyta fyrir HÍ og samfélagið að fá sambærilegt fjármagn og norrænir samanburðarháskólar segir Jón Atli að hægt væri að bæta aðbúnað, umgjörð háskólans og hlúa betur að stúdentum. ,,Mikið hefur verið talað um fækka nemendum á kennara. Við gætum þá sinnt okkar nemendum enn betur og veitt betri endurgjöf. Svo yrði hægt að efla meistaranámið og aðbúnað fyrir doktorsnema. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin þá er umhverfið hjá rannsóknarháskólum allt annað þar hvað þetta varðar. Við þurfum að ná því.“

 

Tungumála- og hugvísindanám á breyttum tímum

Landslag háskólanna hefur breyst töluvert með þróaðri tækni og aukinni hnattvæðingu. Nú er þó hvorki lengur hægt að ljúka BA-prófi í norsku né sænsku frá Háskóla Íslands og í ljósi þess að ef til vill muni fleiri tungumálagreinar innan háskólans eiga undir högg að sækja. Því spyr Sólveig um áherslur HÍ til framtíðar þegar það kemur að tungumála- og hugvísindanámi.

„Ég hef litið svo á að hugvísindin séu kjarni í alhliða háskóla eins og Háskóla Íslands,“ segir Jón Atli. „Hugvísindin eru svo mikilvæg. Þegar ég hitti nýstúdenta á Hugvísindasviði legg ég alltaf áherslu á það að hugvísindin verði mjög mikilvæg í framtíðinni vegna þess að það skiptir svo miklu máli að fólk geti sett sig inn í hluti, greint þá, rökrætt og þar fram eftir götunum. Gagnrýnin hugsun og geta til þess að vinna í hópum er gríðarlega mikilvæg. Tungumálin eru það líka. Vandamálin með norskuna og sænskuna má rekja til þess að við erum svo lítil. Við eigum erfitt með að bjóða upp á öll tungumál.“ Jón Atli bendir á að bygging Veraldar - húss Vigdísar sýni vel afstöðu háskólans, en þar er sérstök áhersla lögð á tungumál. ,,Ég held að leiðin fyrir HÍ í sumum tungumálagreinum, þar sem tiltölulega fáir nemendur eru, sé að byggja upp námsleiðir þar sem við kennum sumt hér og annað í skiptinámi, eins og er til dæmis gert í kínversku og japönsku. Tungumálin opna tækifæri og þess vegna verður háskólinn að leggja áherslu á þau. Ég hef líka bent á það og barist fyrir því eins og kostur er að tungumálanám verði val í sem flestum greinum. Það hjálpar bæði öðrum nemendum að læra tungumálin og getur eflt tungumálanámið að nemendur komi inn þá leiðina.“

 

Tæknivæðing í HÍ

Að lokum spyrjum við um almennar framtíðaráherslur Háskóla Íslands og hvernig hann hyggst bregðast við aukinni tæknivæðingu.

„Ef ég tala fyrir hönd Háskóla Íslands þá er númer eitt að við séum samkeppnishæf. Góður háskóli sem sinnir samfélaginu vel og er alþjóðlega sterkur. Það er línan sem við höfum - alltaf þessi tvískipting, að vera alþjóðlegur rannsóknarháskóli með sterkar skyldur við íslenskt samfélag. Og við erum alhliða háskóli, við bjóðum ekki bara upp á ákveðnar greinar heldur allar megingreinarnar sem háskólar kenna. Þetta er það sem skiptir svo miklu máli. Við höldum okkur við okkar stefnu en þurfum að gera betur hvað fjármögnun varðar vegna þess að þær þjóðir sem standa sig best eru þær sem skilja hvað menntun og vísindi skipta miklu máli og fjárfesta samkvæmt því. Þess vegna þarf að fjárfesta í háskólum. Það er lykilatriði að við séum á tánum og reynum alltaf að gera betur. Það gildir bæði fyrir nemendur og kennara.“

Eitt af verkefnum nútímaháskóla er rafvæðing kennslu. ,,Við höfum tekið mörg skref í þá átt, meðal annars tekið upp rafræn próf. Insperakerfið er í innleiðingu núna og ég trúi því að það sé mjög jákvætt fyrir bæði nemendur og kennara. Síðan erum við að setja á laggirnar nýtt námsumsjónarkerfi, Canvas. Hugmyndin með því er að vera með eitt öflugt kerfi til að halda utan um námskeið fyrir kennara og nemendur í stað þess að vera með nokkur kerfi á borð við Uglu og Moodle. HÍ vinnur einnig að því að vera með öfluga fjarkennslu á vissum sviðum, en þó ekki endilega öllum. Við megum aldrei gleyma því þegar við tölum um rafvæðingu að háskóli er samfélag. Það er ekki gott ef við sendum bara efni rafrænt út og náum aldrei að skapa samfélag eða eiga samtal í kennslustofunni. Það er þar sem fólk lærir. Við þurfum bæði að nota tæknina en líka virkja mannauðinn.“

Sem dæmi um verkefni á sviði rafrænnar miðlunar er edX, en það er samstarf sem HÍ var boðið að taka þátt í. Þar hefur háskólinn verið með nokkur námskeið, en Jón Atli bendir á að þetta sé frábært tækifæri til að auglýsa háskólann og vekja athygli á starfi hans. Þá geti HÍ jafnframt lært af hinum háskólunum í edX netinu. ,,HÍ er líka í svokölluðu Aurora-neti, en það er net öflugra evrópskra rannsóknaháskóla. Við erum að vinna að umsókn um styrk til að koma á laggirnar svokölluðu EUN-neti. Ef við fáum þann styrk og vinnum meira með Aurora-háskólunum munum við geta boðið upp á meira í stúdentaskiptum, bæði með  rafrænum námskeiðum á milli háskóla og líka með beinum stúdentaskiptum. Svo við erum að reyna að stækka Háskóla Íslands og gera hann öflugri í samstarfi við aðra háskóla. Við erum líka að reyna að efla samningana okkar þannig að við getum boðið nemendum upp á enn frekari stúdentaskipti við bestu háskóla í heimi. Þetta er eitt af því sem Háskóli Íslands hefur umfram aðra háskóla á Íslandi – við höfum svo stórt og breitt samstarfsnet sem sýnir að við njótum mikils trausts bæði innanlands og utan.“

 

Við ljúkum viðtalinu á þessum nótum og þökkum fyrir spjallið. Að lokum segist Jón Atli hlakka til hundrað ára afmælis Stúdentaráðs á næsta ári og hann fagnar því að vinna áfram með stúdentum.