Loftlagskvíði í Norræna húsinu

Ljósmynd/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Ljósmynd/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Loftlagskvíða hefur borið á góma í síauknum mæli undanfarið ár. Fyrirbærið er nýtt af nálinni og hefur því ekki verið rannsakað til hins ýtrasta. Kristín Hulda Gísladóttir, meistaranemi á öðru ári í klínískri sálfræði fullorðinna við Háskóla Íslands og formaður Hugrúnar geðfræðslufélags, veit þó nokkuð um málefnið. Hugrún og Ungir umhverfissinnar standa fyrir viðburðinum Andleg heilsa á tímum loftlagsbreytinga á morgun klukkan 19:30 í Norræna húsinu. Þar verður fjallað um tengsl loftlagsbreytinga og geðheilsu.

            „Við hjá Hugrúnu höfum átt samtal við önnur félagasamtök á Íslandi, þá sérstaklega ung félagasamtök, til dæmis Unga umhverfissinna og Ungar athafnakonur um sameiginlegan grundvöll í okkar málum. Öll málefni tengjast í raun og veru ef maður kafar ofan í þau; öll vinna þau að bættu samfélagi,“ segir Kristín Hulda. „Út frá þessu samtali bjuggum við til viðburðinn. Við ætlum að tala um tengsl umhverfismála og geðheilsu, því það eru mjög mikil tengsl sem fólk gerir sér ekkert endilega grein fyrir. Síðan verður áhersla lögð á loftlagskvíða. Meðal erinda verða reynslusaga af loftlagskvíða og fræðsla um lofstlagskvíða og hvað er hægt að gera við honum frá Kvíðameðferðarstöðinni.“

            Aðspurð segir Kristín: „Loftlagskvíði virðist bæði koma fram einangraður þegar fólk sem almennt er ekki haldið kvíða hefur miklar áhyggjur af umhverfismálum. Þá er einnig líklegt að fólk með almenna kvíðaröskun, sem kemur fram í miklum áhyggjur af alls konar hlutum, fái einnig áhyggjur af loftslaginu,“ segir Kristín. „Áhyggjur af umhverfismálum eru gagnlegar og í raun nauðsynlegar til að knýja fram breytingar. Þær geta þó orðið of miklar og jafnvel haft hamlandi áhrif á líf fólks, til dæmis ef fólk liggur andvaka allar nætur því það hefur svo miklar áhyggjur af umhverfismálum eða að ef áhyggjurnar hafi veruleg áhrif á ákvarðanartöku fólks í lífinu, til dæmis að sleppa barneignum.“ Kristín talar einnig um að loftlagskvíði hrjái börn: „Það eru þá líklega í einhverjum tilvikum börn sem eru með almenna kvíðaröskun því þau grípa það sem er í umræðunni og hafa áhyggjur af því. Kannski eru þetta börn sem hefðu fyrir fimmtíu árum haft áhyggjur af kjarnorkustríði en kvíða núna loftlagsbreytingum.“ 

Ýtarlegra viðtal við Kristínu Huldu Gísladóttur um loftlagskvíða birtist í næsta tölublaði Stúdentablaðsins en þema þess er umhverfismál. Til að stytta biðina mælum við með að mæta á Andlega heilsu á tímum loftlagsbreytinga í Norræna húsinu á morgun.