Hvað þýðir það að vera haldin umhverfiskvíða?

Þýðing: Ragnhildur Ragnarsdóttir

Ef við myndum aðeins staldra við og hugsa um hvaða þýðingu umhverfið hefur í raun og veru fyrir okkur öll, hvað umhverfið er mikilvægt í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur, myndi það nægja til að aftra okkur frá því að eyða því? Hugsið nú aðeins um orðin sem ég nota til að spyrja þessara spurninga. Líður ykkur nógu illa? Fáið þið samviskubit? Eða eru þið bara að horfa á heiminn hrynja með hitabrúsa í annarri hendinni og málmrör í hinni? Drekkur einhver yfir höfuð með röri úr hitabrúsa? Mér er fullljóst að þessum spurningum verður ekki svarað, sérstaklega vegna þess að þetta er ritaður pistill en ekki samtal. Ef ykkur líður hins vegar eins og þið séuð hjálparlaus, vonlaus og orkulaus (og fullt af öðrum lýsingarorðum sem enda á -laus) gagnvart ríkjandi loftslagsvá, þá eruð þið ekki ein á báti. Því miður gætuð þið jafnvel verið haldin umhverfiskvíða.

Photo: Lisa Kløfta

Photo: Lisa Kløfta

 Mig langaði til að skilja þættina sem valda þessu vandamáli og þær afleiðingar sem það getur haft á líf fólks. Þess vegna hafði ég samband við Mörtu, sem er fædd og uppalin í Turin á Ítalíu. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í umhverfishagfræði sem síðar leiddi hana til Osló í Noregi. Hún er að skrifa lokaritgerð sína um umhverfisréttlæti og lýkur með henni annarri meistaragráðu sinni í landafræði. Fyrir ári síðan hóf Marta störf hjá einni stærstu umhverfis- og samstöðustofnun Noregs, Framtiden i våre hender. Hún ver tíma sínum í það sem hún hefur áhuga á: umhverfisorsakir og óréttlæti. Hún er dýravinur og nýtur þess að elda dásamlega vegan rétti.

 

Hvenær upplifðir þú fyrst umhverfiskvíða og hvernig byrjaði hann?

Ég var að ljúka við fyrstu meistaragráðuna árið 2016 og fór þá að skoða ritgerðir og bækur sem voru skrifaðar fyrir fjörutíu árum sem kölluðu á svipaðar loftslagsaðgerðir og verið er að kalla eftir í dag. Þegar það rann upp fyrir mér hversu lítil þróunin hafði verið fór mér að líða illa. Ég uppgötvaði ýmislegt sem margt fólk hafði uppgötvað á undan mér. Ég fór að óttast að það sama kæmi fyrir áhyggjur mínar og vonir: að þær myndu ekki heyrast.

 

Áttaðirðu þig á að þetta væri umhverfiskvíði frá byrjun eða lagðistu í rannsóknir?

Ég gerði mér engan veginn grein fyrir því hvað þetta var í byrjun. Fyrsta skilgreiningin sem ég rakst á og hafði eitthvað með þetta að gera var „flugskömm,“ þó gerði ég mér fljótlega grein fyrir því að óróleiki minn átti við mun fleiri hluti en bara flugsamgöngur. Ég hef ekki fengið greiningu sérfræðings, en fyrir ári síðan gerðist ég sjálfboðaliði fyrir rannsóknarverkefni sem skoðar áhyggjur af umhverfinu. Ég var beðin um að skilgreina tilfinningarnar sem ég upplifði og ég man að sú fyrsta sem kom upp í hugan var depurð, og þannig er það ennþá.

 

Á hvaða hátt hefur þetta áhrif á þitt daglega líf?

Á svo marga vegu. Sumt af því held ég að sé jákvætt. Ég kann að meta að fyrsta hugsunin sem kemur upp í huga minn þegar ég sé t.d. flík í búð er: „Undir hvers konar kringumstæðum ætli þetta hafi verið framleitt?“. Þetta setur gildismat mitt í samhengi, jarðtengir mig og minnir mig á að það er ekki mikilvægt að eiga hluti sem eru jafnvel framleiddir með blóði og örvæntingu.

Á hinn bógin finn ég fyrir nokkuð neikvæðum áhrifum, sem er meira og minna afleiðing tilviljanakenndra reglna sem ég set sjálfri mér og að sumu leyti fólkinu í kringum mig. Þessar reglur ná allt frá því að reyna að hætta að kaupa vörur í plastpakkningum til þess að hætta að nota klósettpappír. Ég finn líka að það rænir mig gleðinni yfir ákveðnum athöfnum.

 

Hvernig tekstu á við þetta?

Það er erfitt að takast á við þessar neikvæðu tilfinningar. Sérstaklega vegna þess að ég veit og trúi því svo heitt að við búum yfir færni til að láta kerfið okkar vinna öðruvísi og betur. En ég veit líka að ég er ekki ein í þessu verkefni, og margt fólk vinnur hörðum höndum til að gera heiminn að betri stað (mikil klisja, mér þykir það leitt, eða þannig). Og sú tilhugsun hjálpar stundum. 

Það er eins konar valin sjálfsbjargarviðleitni að vinna að einhverju sem er stærra en maður sjálfur og er þess virði að vinna að. Hluti vinnu minnar um þessar mundir er að tala við fólk nánast allan daginn um umhverfið og samstöðu. Ég legg áherslu á að engum líði illa, sem einstaklingur, yfir því að velja þægilegustu leiðina. En ég er strangari þegar kemur að sjálfri mér. Ef það eina sem ég get stjórnað er neysluslóðin mín, þá líður mér eins og ég sé ekki að leggja neitt af mörkum.

Ég tel að tíma mínum og orku sé betur varið í að hafa áhrif á kerfisbundnar breytingar sem stuðla að gegnsærri og siðferðislega betri framleiðslu, að draga úr neysluvenjum, að þrýsta á sjálfbærar fjárfestingar. Einnig vona ég að upplýsingar verði aðgengilegri í náinni framtíð þar sem minna er um samninga sem fara fram í reykmettuðum bakherbergjum.            

Það væri öllum í hag ef ætti sér stað einhvers konar allsherjar breyting á viðmiðum þar sem sameiginleg velferð okkar allra væri í fyrsta sæti. 

 

Finnst þér eins og þú munir einhvern tímann komast yfir þetta ástand?

Kvíði af þessum toga getur breyst, því ástandið tengist því hvernig við komum fram við umhverfi okkar. Það er erfitt að spá um hvernig mér á eftir að líða þar sem breytingarnar velta ekki einungis á því hverju ég trúi. Ef það væri bara undir mér komið þá myndi ég gera hvað sem er til að koma í framkvæmd góðum, snjöllum, stórum eða litlum aðgerðum án þess að láta ríkjandi og oft á tíðum spilltum efnahagslegum viðmiðum hafa áhrif á allt sem við gerum.

Stundum sveiflast ég milli þess að vera gífurlega bjartsýn yfir í að vera ringluð og óörugg, allt á sama deginum. Það er ekkert grín að vera með umhverfiskvíða.