2022 Tarot: Það sem frú Örlög ber í skauti sér

Þýðing: Þula Árnadóttir

Við höfum öll gengið í gegnum erfitt ár og þar af leiðandi hefur kvíðinn hjá fólki þotið upp. Í von um að gleðja og aflétta kvíða hjá einhverjum spurði ég spilin mín við hverju við gætum búist frá árinu 2022. Hér er það sem þau sögðu:

1. Almenn skilaboð fyrir árið: Andi bjarnarins; Staldraðu við

Almenn skilaboð frá alheiminum fyrir þetta ár er að draga sig í hlé og hugsa um næstu skref. Eftir að hafa upplifað þær takmarkanir sem fylgdu Covid myndi man hugsa að það væri kominn tími á aðgerðir; alheimurinn er ósammála. Það er kominn tími til að íhuga næstu skref okkar í þessum breytta en þó kunnuglega raunveruleika eftir heimsfaraldurinn.

2. Það sem við skiljum eftir: Tunglið

Tunglið getur þýtt marga hluti en ég trúi því hjartanlega að í þessu tilfelli fylgi því sérstaklega skýr skilaboð; það verður ekki meira myrkur í vegi okkar. Fólk er búið að vera í eins konar dvala í gegnum faraldurinn, en nú göngum við út úr því myrkri og stígum inn í ljósið. Það er kominn tími til að takast á við nýjar aðstæður (þegar við erum búin að hugsa hvernig við eigum að höndla þær).

3. Inngangurinn: Gosi í stöfum 

Gosi í stöfum lýsir nýjum ástríðum og ævintýrum. Fólk er í þann mund að stíga inn í hugarástand sem gerir því kleift að eltast við það sem drífur það áfram. Þú mátt búast við nýju upphafi árið 2022, sérstaklega þegar kemur að ferli, list og ferðalögum.

4. Meðvitundin: Turninn - Dauði - Örlagahjólið

Þetta er mjög falleg samsetning sem er táknræn fyrir almenning. Turninn táknar aðstæður sem koma upp úr þurru og hreyfa allrækilega við okkur, sem ég túlka sem faraldurinn. Dauði táknar endurfæðingu og nýtt stig lífs; ‘út með það gamla og inn með hið nýja’ eins og oft er sagt. Örlagahjólið er umsnúningur aðstæðna, breyting sem er okkur í hag. Það var hrist upp í okkur með faraldrinum, við breyttumst vegna hans og erum nú tilbúin að eltast við nýja hluti og taka áhættu.

5. Undirmeðvitundin: Sverðadrottning

Undirmeðvitundin leiðir að meðvitundinni og er þar af leiðandi ómeðvitaður áhrifavaldur á hegðun okkar. Í þessari stöðu sjáum við hina gullfallegu sverðadrottningu. Hún er þrautseigasta drottningin sem hefur gengið langa leið að sjálfsuppgötvun. Núna er hún búin að finna sinn sannleika og heldur á honum á lofti eins og sverði. Það svipar til þess sem ég held að mörg hafi gengið í gegnum vegna faraldursins, og eru núna tilbúin að halda hinum nýja sannleika nálægt hjartanu og bera höfuðið hátt með hann að vopni.

6. Orka framtíðarinnar: Þrír í bikurum

Þrír í bikurum er táknrænn fyrir veislu með vinum. Eftir umrótið, dauðann og endurnýjunina sem fylgir erum við tilbúin til að eiga samskipti að nýju. Þú mátt búast við að kynnast fleira fólki til að fagna lífinu með - og undirbúðu þig fyrir það að djamma aftur.

7. Mögulegar áskoranir: Þrír í sverðum - fimm í sverðum

Þetta er mjög erfið samsetning til að ganga í gegnum. Þrír í sverðum táknar brotið hjarta og fimm í sverðum táknar orrustu og dauða. Það er möguleiki á mörgum mismunandi rifrildum í gegnum árið sem gætu tekið ljóta beygju. Góðu fréttirnar eru að sverðin fjalla almennt um hugræna orku og þankagang; þar af leiðandi er möguleiki á að forðast rifrildi og deilur með því að breyta sínu eigin hugarfari.

8. Möguleg tækifæri: Styrkur

Styrkur í þessari stöðu sýnir að það gætu verið mögulegar áskoranir framundan, en við erum tilbúin til að takast á við þær á áhrifaríkan hátt. Spilið sýnir líka mögulega uppbyggingu í framtíðinni.

9. Útkoma ef við grípum tækifærin: Sjö í mynt

Þetta spil segir okkur að gróðursetja fræ og leyfa þeim að vaxa. Hægt og rólega mun áskorunin sem fylgdi spilinu Styrkur láta gott af sér leiða. Mynt í tarot fjallar um veraldlega og áþreifanlega hluti, svo þú mátt búast við auknum fjármunum, hollum samböndum eða vinnu þegar þetta spil lætur á sér kræla.

10. Ráðleggingar:

Aquina - Ekki standa í stað, það eru góðir hlutir handan við hornið: Þessi ráðlegging passar fullkomlega við spilið Styrk. Kannski munu áskoranir árið 2022 virðast erfiðar, en ef við tökumst á við þær uppskerum við í kjölfarið.

Rubi and The Foxfighters - Orkan sem þú gefur frá þér laðar að sér fólkið þitt: þetta passar mjög vel við mögulegar áskoranir sem koma frá þremur í sverðum og fimm í sverðum. Árið 2022 þurfum við að hafa nærveru okkar í huga og veita því athygli hvernig okkar hegðun hefur áhrif á umhverfið í kringum okkur, í stað þess að vera föst í sjálfhverfu og yfirborðskenndu hugarástandi.

Maggie - Knúsaðu einhvern í dag: Ég held að þetta eigi við um alla daga; ekki gleyma að sýna þeim sem þú elskar ást. Það gerir erfiða tíma svo mikið auðveldari.

11. Almennir undirtónar: Tveir í sverðum - Andi broddgaltarins: Tími til þess að temja sér hugarástand byrjandans

Ég lýk lestrinum með almennum undirtóni fyrir árið 2022; það eru margar ákvarðanir sem blasa við okkur og til þess að við getum tekið réttar ákvarðanir þurfum við að aðlaga hugarástand okkar að þessari nýju leið til að lifa.

Ég vona að þetta hafi verið hjálplegt fyrir einhver ykkar. Munið að tarot er bara til gamans en stundum geta spilin hjálpað okkur að sjá hlutina í nýju ljósi.

Stokkar:

Shadowscapes Tarot eftir Stephanie Pui-Mun Law

The Spirit Animal Oracle eftir Colette Baron-Reid

Pixiekins – A Daily Inspiration Deck eftir Paulina Cassidy

Fyrirvari: Allar myndirnar af spilunum eru notaðar einungis til gamans. Ætlunin er ekki að auglýsa neitt af því sem kemur fram í textanum. Allir stokkar eru mín persónulega eign og allar myndir eru teknar á mínum eigin síma.