COP26: Dæmt til að mistakast?

Mynd: Wilton Park

Mynd: Wilton Park

Þýðing: Jakob Edvardsson

Eftir fáeina mánuði mun tuttugasta og sjötta loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (SÞ) eiga sér stað í Glasgow í Skotlandi. Með einróma samþykki vísindasamfélagsins um staðreyndir loftslagsbreytinga, liggja örlög okkar nú í höndum valdhafa og löggjafa heimsins er þeir búa sig undir að ræða þær samræmdu félagslegu umbreytingar í átt að kolefnishlutlausari framtíð sem eru nauðsynlegar ef við ætlum að komast hjá loftslagshamförum.  Spurningin er hvort samningamenn SÞ geti leyst verkefnið. 

Traust gegn betri vitund

Fulltrúum ríkja er veitt umboð og traust, með tilstuðlan lýðræðisins, til að sjá fyrir þörfum þegna sinna. Skortur á viðeigandi og gagnlegum viðbrögðum leiðtoga heimsins við hraðri þróun loftslagsbreytinga veikir traust okkar á hæfni þeirra til ákvarðanatöku. 

Hingað til hefur alþjóðleg stefnumörkun gegn loftslagsbreytingum borið lítinn árangur. Tuttugu og fimm loftslagsráðstefnur SÞ hafa liðið hjá og enn er þrálátur skortur á samræmdum aðgerðum á vegum þjóðhöfðingja til að bregðast við fullkominni tilvistarógn vegna loftslagsbreytinga. Vísað er til nýjustu ráðstefnunnar, COP26, sem mun eiga sér stað í Glasgow í nóvember á þessu ári, sem einstakt en einnig síðasta tækifæri okkar til að hafa raunveruleg áhrif á framtíð okkar í loftslagsmálum áður en það er um seinan.

Mikilvægi COP26 á rætur sínar að rekja til nýjustu skýrslu (ágúst 2021) Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, sem kemur út á sjö ára fresti. Hlutverk IPCC er að birta trúverðug vísindaleg gögn, sem nauðsynleg eru fyrir löggjafa til að taka upplýstar ákvarðanir varðandi aðgerðir í loftslagsmálum. Þó IPCC sé yfirleitt íhaldsöm stofnun þá dregur nýjasta skýrsla hennar upp afar dökka mynd af horfum fyrir vistkerfi jarðarinnar nema tafarlausar samræmdar aðgerðir séu gerðar til að umbreyta neysluvenjum samfélagsins. Með nýjasta verk IPCC að baki þá virðist eðlilegt að binda vonir sínar við COP26 og gera ráð fyrir því að samningaviðræður gangi vel í þetta sinn. Hins vegar, í ljósi síðustu tuttugu og fimm loftslagsráðstefna SÞ virðist æ líklegra að samningaviðræður í Glasgow muni einfaldleg aendurtaka það sem áður hefur verið gert. Stefnumótendur, sem fulltrúar óbreytts ástands, virðast sáttir við smávægilegar breytingar á kerfinu en ófærir um að endurskoða rökin sem kerfið í heild sinni er byggt á. 

Að taka illgresið upp með rótum 

Það er áhugavert að vestræn heimsvaldastefna hefur verið knýjandi þáttur í eyðingu vistkerfa og menninga frá upphafi. Sú hugmynd að náttúran, auðlindir hennar, og að aðrar manneskjur hafi þann tilgang að hagnast „valdinu“ hefur verið hornsteinn vestrænnar menningar síðustu aldirnar. Enn í dag er látlaus vinnsla á náttúruauðlindum úr jörðinni arðbær og stöðluð vinnubrögð fjölþjóðlegs jarðefnaiðnaðar á meðan útvistun Vesturlanda á framleiðslu til þróunarlanda reiðir sig á rányrkju og vinnuþrælkun. Í raun hefur hugarfarið sem kom okkur í núverandi heimskrísu ekkert breyst frá byrjun Vestrænnar heimsvaldastefnu. Afleiðing þess er að alþjóðlegu kerfin eru ófær um að bregðast við vistkreppunni, þar sem þau sjálf eru að mestu leyti ábyrg fyrir stöðunni.

Nú, tuttugu og fimm loftlagsráðstefnum síðar, ættum við að vera orðin vön sorglegum skorti á áreiðanlegum aðgerðum í loftslagsmálum á heimssviðinu. Á meðan kerfið, og undirliggjandi forsendur þess, sem skóp loftslagskrísuna heldur áfram að dafna og á meðan þeir einstaklingar sem við lítum til eftir lausnum eru sjálfir nátengdir valdakerfunum sem viðhalda óbreyttu ástandi, munum við vera ófær um að ná umhverfisvænum framförum. Nauðsyn er á nýjum lausnum sprottnum upp af grasrót sem krefst brýns og róttæks endurmats á vestrænum gildum samhliða breytingum á gangverki og formgerð samfélags okkar.  Að öðrum kosti gæti það að gefa eftir ákvarðanatöku til stefnumótenda leitt til hörmunga.