Leikhúsumfjöllun: Glamúr og grátur, glimmer og hlátur

Katla og Hófí eru leikhúsrýnar Stúdentablaðsins. Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Katla og Hófí eru leikhúsrýnar Stúdentablaðsins. Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Umfjöllun um Endurminningar Valkyrju og HÚH! Best í heimi

Endurminningar Valkyrju

Fjöllistahópurinn Endurnýttar væntingar frumsýndi drag-revíuna Endurminningar Valkyrju 10. október síðastliðinn í Tjarnarbíói. Dansararnir Ásgeir Helgi Magnússon og Cameron Corbett eru listrænir stjórnendur sýningarinnar. Þeir komu jafnframt sýningunni á legg ásamt Sigríði Eyrúnu Friðriksdóttur og Sigurði H. Starr Guðjónssyni en þau eru einnig höfundar verksins. Þetta er fyrsta sýningin sem hópurinn vinnur að en á meðal flytjenda eru þaulvanar dragdrottningar. Sýningin er sýnd á ensku og er hún því tilvalin leikhúsupplifun fyrir einstaklinga sem eru ekki íslenskumælandi. Sýningin er full af söng, glimmeri, stuði og stemningu.

Fjórar Brynhildar stíga á svið en þær leika dragdrottningarnar Agatha P, Faye Knús, Gógó Starr, og Vera Schtilld. Þær leiða okkur í gegnum ruglingslega sögu fjögurra Brynhilda, Brunhildi, sem var eiginkona Siegberts Frankakonungs og prinsessa af Ástrasíu, Brynhildi víkingadrottningu Íslands, Brynhildi valkyrju úr Niflungahring Wagners og þá Brynhildi sem fyrirfinnst í norrænni goðafræði. Sagan virðist þó ekki skipta öllu máli og tengir aðeins lauslega saman líf Brynhildanna. Endurminningar Valkyrju er fyrst og fremst gott „show“ þar sem glimmer ræður ríkjum og kómíkinni er pumpað í allar rifur.

Búninga- og sviðshöfundur sýningarinnar er Júlíanna Lára Steingrímsdóttir. Búningarnir eru allir ótrúlega fallegir og ævintýralegir sem passaði vel við ævintýraskóg sviðsmyndarinnar. Þær voru í fáguðum og prinsessulegum síðkjólum, með nóg af demöntum, ásamt því að klæðast aðsniðnum göllum skreyttum með glimmeri og demöntum. Sviðsmyndin er líkt og ævintýraskógur og gæti allt eins hafa verið gerð fyrir barnaleikhús. Í bakgrunni er kastali og á himninum regnbogi, en þegar nánar er litið má sjá að á kastalanum eru typpaturnar og brjóstaþök. Það setur tóninn fyrir sýninguna. Hver krókur og kimi sviðsmyndarinnar er nýttur á mjög skemmtilegan máta. Það er ljóst að mikil hugmyndavinna liggur þarna að baki. Eins og allir vita getur hvað sem er gerst í ævintýraskógi og hér er á boðstólum ópera, ballett, nútímadans, brúðuleikhús, rapp, fegurðarsamkeppni, söngleikur, „Lip sync“ og leikhús, allt í einum ævintýralegum pakka.

Í sýningunni eru bæði frumsamin lög og önnur lög sem við þekkjum mjög vel. Leikararnir rappa, syngja óperu, flytja söngleik og að sjálfsögðu eru „lip sync“ atriði. Textarnir voru hnyttnir en mikið var um orðaleiki og fullkomið magn af hortugheitum. Tónlistin var vel valin, hélt uppi stuði og aðstoðaði við stefnubreytingar í sýningunni, sem voru margar en vel heppnaðar. Stundum virkuðu skipti milli atriða örlítið knöpp, farið var úr einu í annað en það var þó ekki til trafala. Ljósahönnuður sýningarinnar er Kjartan Darri Kristjánsson. Lýsingin hafði mjög jákvæð áhrif á skiptin og stemninguna. Hljóðblöndum hefði mátt vera betri en það kom reglulega fyrir í sýningunni að erfitt var að heyra í leikurunum og tónlistin gat verið mishá. 

Dansrútínur Brynhildanna voru fyndnar og oft klúrar en áttu sín fallegu augnablik og allar voru þær vel framkvæmdar og úthugsaðar. Hvort sem þær voru á uppblásnum einhyrningum, veifandi blævængjum eða í skylmingarham. Þær beittu líkömunum sem verkfærum, fætur urðu að eldi og svo er líka ekkert grín að ganga í svona hælum, hvað þá að dansa. Dansatriðunum fylgdu mikil saga og svipbrigði. 

Í fegurðarsamkeppni Brynhildanna er hæfileikakeppni sem gæti verið hugsuð sem háðsádeila á nútímasamfélag. Þar flytur ein Brynhildurin, öllum að óvörum, eyrnaklám (e. ASMR) við miklar undirtektir. Önnur Brynhildur er með brúðuleikhús og tvær af Brynhildunum leita að hæfileikaríku fólki í áhorfendasalnum og finna þar Bjarna Snæbjörnsson leikara sem syngur frumsamið ástarlag um Leif Lattegaur.

Dragsenan á Íslandi hefur verið í mikilli uppbyggingu undanfarið. Hún hefur notið mikilla vinsælda og fólk flykkist að til að sjá slíkar sýningar. Þó svo að þessi sýning sé ekki eins og hin hefðbundna dragsýning má finna blæbrigði drags í öllum atriðunum. Þá er drag að finna í flestum þáttum verksins, í búningunum, dansinum, söngnum og klúru gríninu. Hér setur jaðarsettur hópur sig í stellingar norrænnar hámenningar á einstakan og skemmtilegan máta. Sýningin endaði í klikkuðum fagnaðarlátum. Í salnum bak við okkur hafði gestur orð á því að hann hefði getað horft á þetta allt kvöldið og við erum sammála. Sýningin hélt okkur allan tímann og við áttum erfitt með að hafa augun af sviðinu.

HÚH! (Best í heimi)

Við skelltum okkur á HÚH! 6. nóvember síðastliðinn. Leikhópurinn RaTaTam sviðsetur sjálfið á Litla sviði Borgarleikhússins. Leikstjóri er Charlotte Bøving og Stefán Ingvar Vigfússon er aðstoðarleikstjóri og dramatúrg. Hópurinn hefur áður sett á svið sýningarnar Suss! sem byggði á reynslusögum um heimilisofbeldi og Ahhh…, sýningu um ástina sem gerð var upp úr textum eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur. Hópurinn sviðsetur hið mannlega, ófullkomleika, það sem má ekki segja upphátt og er vanalega sópað undir teppið en gerir það með húmor og mýkt. Hópurinn snertir á öllum tilfinningaskalanum með verkum sínum og nýtir tónlist sem tjáningartæki. Helgi Svavar Helgason sér um hljóðmynd ásamt leikhópnum og tókst þar vel til. Lögin eru góð viðbót og gefa sýningunni skemmtilegan blæ, þá sérstaklega grátlagið og lagið um að vinna í sjálfum sér.

Leikararnir Albert Halldórsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Guðrún Bjarnadóttir, Halldóra Rut Baldursdóttir og Hildur Magnúsdóttir leika hér fimm Íslendinga, sig sjálf. Margir hafa fjallað um sjálfið og reynt að skilgreina það. Samkvæmt kenningum um táknræn samskipti (e. Symbolic interactionism) þróa einstaklingar sjálfið með því að setja sig í hlutverk annarra og sjá sig í augum þeirra en hér setur leikhópurinn sig í sín eigin hlutverk, sín eigin sjálf og deilir þeim opinskátt með áhorfendum. Þau berskjalda sig áhorfendum sínum og opinbera óöryggi sitt og spegla sig í öðrum. Það sjáum við í þeim ólíku persónum sem bregða sér á svið en á sviðinu voru til dæmis tveir í íþróttabúning, fegurðardrottning, pylsa og górilla sem viðurkenndu öll vanmátt sinn.

Ljósin slokknuðu í salnum og heimssagan blasti við á tveimur skjáum. Mús og kött ehf. gerði myndböndin. Titill verksins vísar til „Víkingaklappsins“ og gefur í skyn að sýningin muni fjalla um þjóðarrembing Íslendinga. Þó er látið duga að telja upp nokkur þjóðarstolt Íslendinga og reglulega hent inn frösum á borð við „Er ekki nóg að gera?“, „Ertu ekki bara hress?“ „Fáðu þér í glas.“ „Er ekki allt gott að frétta?“ og  „Ótrúlegt hvað veðrið er gott í dag“. Slíkir frasar eru okkur Íslendingum vel kunnugir. Þeir vísa til svipaðra hugmynda og „þetta reddast“ þar sem við erum hvött til að bægja frá okkur áhyggjum og tjá okkur ekki um þá erfiðleika sem hrjá okkur.

Á skjánum rúlluðu setningar á borð við „Vanlíðan og þráhyggja“ sem virtust vera einhvers konar þemu fyrir atriðin. Aron Martin Ásgerðarson sá um textavél.

Hófí: „Þrátt fyrir að það væri vel gert voru skjáirnir óþarfi þar sem leikurinn kom því til skila hjálparlaust sem skjáirnir höfðu að segja. Ég vissi ekki hvort ég ætti að veita þeim sérstaka athygli og horfði eins og skopparabolti upp á þá og niður á leikarana.“

Katla: „Ég er sammála að það var ekki brýn nauðsyn að hafa skjáina en mér fannst þeir þó ekki vera óþarfi, ég taldi þá oft gefa atriðinu ákveðin blæ. Ég hafði gaman að skjáskotunum sem komu, eins og íslenska fánanum og svipmyndum af frægum íslenskum viðburðum.“

Hófí: „Ég er sammála þér að mestu leyti með myndböndin en skriflegu „þemun“ fannst mér trufla frá leiknum.“

Björn Bergsteinn Guðmundsson sá um lýsinguna en hún passaði verkinu vel. Þórunn María Jónsdóttir sá um leikmynd og búninga. Leikmyndin er byggð úr veggjum úr svampi með alls kyns götum sem leikararnir gægjast í gegnum og eru skemmtilega nýttir sem dýnur í seinni hluta sýningarinnar. Búningarnir voru litríkir, komu áhorfendum á óvart og uppskáru oft mikinn hlátur. Þau byrja sýninguna við stjórnvölinn, í eðlilegum og jafnvel fagmannlegum fötum. Meðan þau skræla sig innar og innar að kjarnanum verða búningar kjánalegri og skrítnari. Þau hefðu mátt staldra meira við í sumum sögum og skræla eitt lag í viðbót, án þess þó að þurfa að bæta við skrítnari búningum. Stundum virtust búningarnir vera skrítnir bara til að vera skrítnir og uppskera hlátur, sem þeir gerðu.

Leikararnir skiptast á að taka við erfiðum sögum frá hinum og svara með sínum eigin sögum. Öll viljum við tjá okkur og það virðist stundum mikilvægara en að hlusta á hvert annað. Stutt var á milli hláturs og vorkunnar og tárin reyna að stelast út úr augnkrókunum þegar Halldóra fer með „Þegar ég var lítil“ og hverfur dýpra og dýpra ofan í dýnuhauginn. Í sumum atriðum áttum við erfitt með að geta ekki farið til leikaranna, faðmað þau og sagt þeim að þetta sé allt í lagi. Lífið er erfitt, lífið er hverfult, lífið er fyndið og lífið er ekki rómantísk gamanmynd og það er svekkjandi.

Við glímum öll við vandamál, sama hversu „flott“ við erum, eða virðumst. Það skiptir ekki máli hvort maður sé stórleikari í aðalhlutverki í Þjóðleikhúsinu, konan sem gerir allt og getur allt, formaður húsfélagsins, fyndni gæinn, glaða glimmerklædda konan sem syngur svo fallega í karaoke eða hin fullkomna mamma. Stundum erum við með þráhyggju og eltum SAAB bíla, stundum skiptir veislan meira máli en að þú sért í henni, stundum erum við eins og fiskar á þurru landi, stundum eigum við erfitt með að taka ákvarðanir, stundum skömmumst við okkar fyrir líkamann okkar, stundum erum við öfundsjúk, leið, reið, vonsvikin og brotin og stundum neitum við að viðurkenna vanmátt okkar og keyrum okkur í þrot.

Leikhópurinn RaTaTam eru góður í að koma hlátri inn í erfiðar sýningar. HÚH! er mjög kómísk sýning en hún snertir grátlega vel á erfiðum raunveruleika sem flestallir tengja mikið við. Hér var óöryggi einstaklinga sett á svið á mjög einlægan og óheflaðan máta. Allir eiga sinn djöful að draga eins og skýrt var í sýningunni. Það kemur einnig í ljós að þó svo að fólk sé að glíma við allskyns ólík vandamál þá er margt sem er sameiginlegt með okkur.