„Yfirlýst neyðarástand þarf að þýða að við skiljum alvarleika málsins“

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

Fyrir skemmstu hitti blaðamaður Stúdentablaðsins Þorbjörgu Söndru Bakke á skrifstofu hennar í Aðalbyggingu Háskólans en hún er verkefnastjóri sjálfbærni- og umhverfismála á framkvæmda- og tæknisviði í HÍ. Starfið er fjölbreytt og að sögn Þorbjargar skiptir máli að hafa augun opin fyrir þeim tækifærum sem standa til boða til að gera betur í umhverfismálum og grípa þau. „Svo held ég utan um nokkur verkefni, eins og Græn skref, tek þátt í innleiðingu ISO 14001, sinni verkefni sem snýr að bættri umgengni í skólanum og á í samstarfi við nemendur um að innleiða Grænfánann.“

Á sér langan aðdraganda  

Starf verkefnastjóra sjálfbærni- og umhverfismála í HÍ hefur ekki verið til lengi en aðspurð segir Þorbjörg að það eigi sér langan aðdraganda og hafi orðið til hægt og bítandi. Umhverfismálum sem snúa að rekstri hefur þó lengi verið sinnt á framkvæmda- og tæknisviði auk þess sem kennsla og rannsóknir á sviði umhverfismála hafa lengi verið stundaðar í HÍ og fari vaxandi með ári hverju. „Ég byrjaði sem sumarstarfsmaður og þá var ég að halda utan um vefgátt umhverfismála og búa til vefgáttir fyrir vísindamiðlunarverkefni. Síðan þróaðist þetta út í það að vera aðallega vísindamiðlunarstarf en smátt og smátt fengu umhverfismálin að taka yfir.“ Þorbjörg hefur alltaf haft brennandi áhuga á umhverfismálum og segist hún vera mjög þakklát fyrir að sinna þessum málaflokki í Háskóla Íslands. 

Háskólasamfélagið ber allt ábyrgð  

Aðspurð hvort að henni finndist háskólinn vera að gera nóg í loftlagsmálum svarar Þorbjörg neitandi. „Háskólinn á að vera leiðandi í þessum málum vegna þess að hér býr þekkingin.“ Hún bætir við að hún telji reyndar að enginn sé að gera nóg, hvorki hún sjálf, aðrir starfsmenn háskólans né aðrir hlutar samfélagsins”. Hins vegar hafi tímarnir verið að breytast og mennirnir með og fólk í HÍ er orðið mun meðvitaðra um umhverfismál en þegar hún hóf störf þar. Þessum aukna áhuga þarf þó að fylgja breyting til hins betra og háskólasamfélagið allt ber ábyrgð á því hvernig málin þróast áfram. Nú er verið að skoða hvað best sé að gera til að draga úr kolefnislosun háskólans. En til að það sé vel gert þarf að reikna aftur svokallað losunarbókhald og verður það gert á næstunni. Það er heildrænt bókhald um losun háskólans á tegundum gróðurhúsalofttegunda en með því að reikna það út er hægt að sjá hvar háskólinn ætti að leggja áherslur sínar. „Síðast var það losun frá einkabílnum sem hafði mest vægi. En nú vinna hinir ýmsu hópar háskólans að því að draga úr losun hans vegna. Eins hef ég verið að leggja áherslu á flugið undanfarið. Þar erum við byrjuð á nokkrum mjúklegum aðgerðum. Ég held að í þeim málum sé best að byrja á því að reyna að höfða til fólks, sýna fram á kosti þess að draga úr flugi o.s.frv. frekar en að setja flugi skorður, síðan þurfi að fylgjast með hvort það hafi jákvæð áhrif áður en gripið er til frekari aðgerða.“ Þorbjörg segir jafnframt að það sé erfitt að komast hjá öllu flugi þar sem háskólinn er í miklu alþjóðasamstarfi en að fólk sé líklega að fljúga talsvert meira en nauðsynlegt er.  

Fundaröð um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna  

Það eru nokkur verkefni sem liggja fyrir á skólaárinu í sjálfbærni- og umhverfismálum. Má þar nefna fundaröð um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem rektorsskrifstofa stendur fyrir. „Það setur auðvitað ákveðinn tón að það komi frá rektorsskrifstofu.“ Sjálfbærni- og umhverfisnefnd Háskóla Íslands er jafnframt að vinna í því að setja nýja stefnu sem einnig byggir á heimsmarkmiðum SÞ. „Svo eru auðvitað fullt af minni verkefnum í gangi, til að mynda að skoða hvernig hægt sé að bæta aðgengi fyrir hjólreiðafólk eða hvernig á að minnka plastnotkun enn frekar,“ segir Þorbjörg.  

Það verður að fylgja aðgerðaáætlun  

Blaðamaður Stúdentablaðsins spurði Þorbjörgu hvort að hún teldi að háskólinn ætti að lýsa yfir neyðarástandi í loftlagsmálum. „Persónulega tel ég að það gæti verið góð leið til að beina sjónum að alvarleika málsins. En það þarf að fara rétt að. Það sem verður að fylgja er aðgerðaáætlun“ segir Þorbjörg. Þá segir Þorbjörg að mikilvægt sé að neyðarástand þýði ekki að það verði einhvers konar hræðsluástand og enginn geri neitt af viti. „Yfirlýst neyðarástand þarf að þýða að við skiljum alvarleika málsins, að við séum tilbúin að fara í aðgerðir og að við ætlum að gera það fljótt“ segir hún. „Ég held að þeir sem vilja ekki lýsa yfir neyðarástandi séu að skilja orðið neyðarástand eins og það þýði brjálað panikk þar sem fólk fer að hlaupa aðgerðalaust um í hringi, eða gerræðisástand þar sem stjórnvöld fari fram af krafti með ólýðræðislegum hætti og brjóti jafnvel mannréttindi, það er auðvitað ekki það sem við viljum gera. Mér er í rauninni sama hvort orðið neyðarástand sé notað, kannski er eitthvað annað betra. Aðalmálið er að við grípum til afar róttækra aðgerða sem ríma við alvarleika málsins,“ bætir Þorbjörg við.  

Að rannsaka og fræða er kjarninn í starfi háskólans  

Framtíðarsýn Þorbjargar á sjálfbærni- og umhverfismálum innan háskólans er að auka samtalið við fræðimenn í þessum málaflokki ásamt því að háskólinn verði í fararbroddi þegar að honum kemur. „Þá vil ég að stjórnsýslan sé í betra og meira samtali við fræðimenn þar sem það er ótrúlega mikil þekking innan háskólans sem við getum nýtt okkur í okkar daglega rekstri.“ Hún segir jafnframt að háskólinn eigi að vera í fararbroddi hvað varðar losun sem er beintengd starfsemi háskólans en einnig á hann að vera þrýstiafl út í samfélagið. „Að fræða og rannsaka er kjarninn í starfi háskólans og tel ég það mikilvægasta hlutverk hans að miðla þekkingunni bæði inn á við og út fyrir háskólann og stuðla þannig að því að hér á landi sé þekkingarsamfélag svo þekking og ígrundun einkenni þær ákvarðanir sem hér eru teknar um loftlagsmálin,“ segir Þorbjörg. Að lokum nefnir hún að það sé ágætt að hugsa aðgerðir í loftlagsmálum sem tækifæri til að gera samfélagið betra enda er svo margt sem er gott fyrir okkur mannfólkið hér og nú sem jafnframt er jákvætt fyrir loftslagið, eins og aukinn jöfnuður, það að borða meiri grænmetisfæði, hjóla, ganga og hægja á neyslunni.