Sálfræðingum fjölgar í HÍ

„Árið 2018 lofaði HÍ að fjölga sálfræðingum við skólann úr einum í þrjá og hefur nú sá þriðji verið ráðinn og hafið störf.“ Ljósmynd/Helga Lind Mar

„Árið 2018 lofaði HÍ að fjölga sálfræðingum við skólann úr einum í þrjá og hefur nú sá þriðji verið ráðinn og hafið störf.“ Ljósmynd/Helga Lind Mar

Pistill frá forseta SHÍ, Jónu Þóreyju Pétursdóttur

Í vikunni bárust Stúdentaráði þau gleðitíðindi að þriðji sálfræðingurinn hafi hafið störf við Háskóla Íslands. Heilbrigði stúdenta hefur verið Stúdentaráði hugleikið undanfarin ár og frá 2018 hefur Stúdentaráð Háskóla Íslands vakið sérstaka athygli á bágri stöðu stúdenta þegar kemur að geðheilbrigðismálum. Í kjölfarið hefur skólinn tekið ýmis framfaraskref og hefur fjármagn verið aukið til geðheilbrigðismálefna stúdenta innan skólans og úrræðum fyrir stúdenta fjölgað töluvert.

Árið 2018 lofaði HÍ að fjölga sálfræðingum við skólann úr einum í þrjá og hefur nú sá þriðji verið ráðinn og hafið störf. Það eru virkilega ánægjulegar fréttir, enda þó úrræðum á borð við hópmeðferðir fjölgi er eftirspurn eftir einstaklingsviðtölum hjá sálfræðingum enn mikil og biðlistar nokkuð langir. Við óskum því Guðlaugu, nýráðnum sálfræðingi við HÍ, til hamingju og góðs gengis í starfi.

Sem forseti Stúdentaráðs á ég sæti í starfshópi háskólans um geðheilbrigðismál en þar er áfram unnið gott starf. Á síðasta fundi lagði ég til að hugleiðsluhópur háskólans yrði efldur sem hlaut góðar viðtökur og var rætt um sérstaka aðstoð til þeirra nemenda á Heilbrigðisvísindasviði sem lentu í slysi í rútuferð síðastliðna helgi. 

Úrræðin sem til staðar eru við HÍ eru að bera árangur. Sálrækt, hópnámskeið á vegum nema í klínískri sálfræði, hefur skilað góðum árangri og í nafnlausri netkönnun gáfu þátttakendur í meðferðinni henni 9 af 10 í einkunn. Þá dró þátttaka bæði úr þunglyndis- og kvíðaeinkennum samkvæmt stöðluðum matskvörðum úr því að vera alvarleg/miðlungs einkenni í væg á báðum listum. HAM hópmeðferðir hafa einnig skilað góðum árangri en skor þátttakenda í HAM hópmeðferðum, sem boðið er upp á innan skólans, lækkuðu að meðaltali um 4,5 stig á þunglyndiskvarða og 4,4 stig vegna kvíða frá upphafi meðferðar. 

Við fögnum góðu gengi geðheilbrigðisúrræðanna, fjölgun þeirra og ráðningu þriðja sálfræðingsins og mun Stúdentaráð áfram beita sér fyrir bættu háskólasamfélagi.

HáskólinnRitstjórn