Hindrunarhlaup kvenkyns frumkvöðla

„Það er svolítið sláandi að heyra hvernig viðmóti þær hafa mætt á sínum ferli. Þó að þeirra reynsla endurspegli ekki reynslu hverrar og einnar konu í frumkvöðlastarfi þá er hún samt til staðar.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Það er svolítið sláandi að heyra hvernig viðmóti þær hafa mætt á sínum ferli. Þó að þeirra reynsla endurspegli ekki reynslu hverrar og einnar konu í frumkvöðlastarfi þá er hún samt til staðar.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Kvenkyns frumkvöðlar hérlendis lenda í ýmsum hindrunum vegna kynferðis, segir Snæfríður Jónsdóttir viðskiptafræðingur. Snæfríður útskrifaðist frá Háskóla Íslands fyrir rúmu ári síðan og vann lokaverkefni til BS gráðu í viðskiptafræði um eiginleika, hindranir og tækifæri kvenkyns frumkvöðla. Hún gerði rannsókn sem fólst meðal annars í því að ræða við konur sem hafa komið að frumkvöðlastarfsemi á einn eða annan hátt.

„Ég hafði mikinn áhuga á frumkvöðlaumhverfinu á Íslandi og fékk meiri áhuga á því eftir að ég fór á fund hjá Ungum athafnakonum sem var hjá Icelandic Startups en þar voru pallborðsumræður um konur í frumkvöðlaumhverfinu. Svo er þetta náttúrulega mjög áberandi í háskólasamfélaginu, sérstaklega í mínu námi í viðskiptafræðinni og ég vissi af því að það væru færri konur og mig langaði að kanna hvers vegna það væri.“

Snæfríður segir að gjarnan sé sagt að áhættusækið eða hugrakkt fólk verði frumkvöðlar. „Mig langaði svolítið að kanna hvort það væru bara sérstakar týpur sem gerðu það eða hvort það væri fjölbreyttur hópur einstaklinga. Mig langaði líka að vita hvort það væri kynbundið, hvort eiginleikarnir væru ólíkir eftir kyni.“

Snæfríður komst að því að eiginleikar frumkvöðla væru frekar einstaklingsbundnir en kynbundnir. „Það er svosum eitthvað sem ég gat alveg ímyndað mér fyrir fram en mér fannst samt spennandi að kanna það. Hins vegar er ólíkur bakgrunnur og viðmót sem mótar einstaklinga, til dæmis þá eru konur kannski síður teknar alvarlega eða þær þurfa að sanna sig frekar en karlar í þessu umhverfi og þar af leiðandi eru þeirra eiginleikar kannski bældir aðeins niður.“

„Þú verður líka að vera viðbúinn því að gera mistök, standa upp og halda áfram“

Snæfríður segir að hennar rannsókn hafi staðfest þau einkenni frumkvöðla sem gjarnan er talað um í fræðilegum greinum og skrifum. „Þau rímuðu vel við það sem kom fram í viðtölunum sem ég tók. Það er fyrst og fremst ástríða fyrir því sem þú ert að gera, það að hafa trú á hugmyndinni sinni. Svo er það frumkvæði og drifkraftur að stórum hluta vegna þess að þetta er alls ekkert auðvelt, að fá hugmynd, koma henni af stað, halda henni við og hafa trú á henni. Þú þarft að trúa mjög mikið á þig og hugmyndina sem felur líka í sér þrautsegju, bara það að halda þetta út af því að það kemur alltaf eitthvað mótlæti. Þú verður líka að vera viðbúinn því að gera mistök, standa upp og halda áfram.“

Ísland hefur oft verið tengt við mikið jafnrétti kynjanna og Snæfríður segir að tækifæri kvenkyns frumkvöðla hérlendis séu vissulega fleiri en í mörgum öðrum löndum. „Við erum ágætlega framarlega á sviði jafnréttismála þannig að það eru ýmis tækifæri til staðar en við þurfum einhvern veginn samt að gera konur sýnilegri og þurfum að koma þeim meira áfram í frumkvöðlastarfi.

Við erum með stuðningsnet, við erum með sérstaka styrki fyrir konur, við erum með platform eins og Icelandic Startups sem hefur hrint af stað sérstöku átaki sem kallast Engar hindranir til þess að koma fleiri konum í þátttöku í Gullegginu þannig að við erum meira með þetta í umræðunni. Það sem þarf samt sem áður að gerast er að fleiri kvenkyns frumkvöðlar stígi fram en þetta er klárlega skref í rétta átt.“

Skortur á sýnileika mikil hindrun

Um sérstakar hindranir kvenkyns frumkvöðla nefnir Snæfríður helst skort á sýnileika þeirra. „Þegar ég var að ákveða viðmælendur var ég var frekar fljót að lista upp allar konurnar sem ég mundi eftir og mér fannst ég vera það fljót að ég fór strax að hugsa hvort þær væru ekki fleiri. Ég væri til í að hafa fleiri og ég og flestir viðmælendur mínir vorum sammála um það að hluti af hindrunum kvenna í frumkvöðlaumhverfinu er skortur á fyrirmyndum. Það skiptir svo ótrúlega miklu máli að sjá einhverja konu gera eitthvað og hugsa þá með þér af hverju þú ættir ekki að geta það.“

Það eru þó fleiri hindranir í vegi kvenkyns frumkvöðla en skortur á fyrirmyndum. „Aðrar hindranir eru til dæmis aðgengi að fjármagni. Þó það sé hindrun fyrir alla frumkvöðla þá er það stærri hindrun fyrir kvenkyns frumkvöðla. Miðað við viðtölin sem ég tók og það sem ég las þá er fjárfestaumhverfið mjög karllægt og það er erfiðara fyrir konur að nálgast fjármagn.

Það er erfitt að setja einhvern stimpil á það hvort það sé meðvitað eða ómeðvitað hjá fólki í fjárfestingageiranum en af reynslu viðmælenda í rannsókninni þá er þetta umhverfi mjög karllægt og þær þurfa að sanna sig mun meira heldur en karlar í sömu stöðu og í ritgerðinni eru tekin fram dæmi um slíkt,“ segir Snæfríður. Í ritgerð hennar er einnig bent á að erfitt geti verið fyrir kvenkyns frumkvöðla að samræma starfsframa og fjölskyldulíf.

„Hún fékk í alvörunni viðmótið eins og hún sé bara alltaf úti að týna blóm“

Kvenkyns frumkvöðlar sem fást við það sem samfélagið skilgreinir gjarnan sem „kvenlega“ nýsköpun geta orðið verr úti en aðrir kollegar þeirra. „Einn viðmælandi minn stofnaði fyrirtæki sem framleiðir jurtalyf. Hún rakst á það að fólki þætti það ótrúlega kvenlegt og af þeim sökum væri hennar nýsköpun síður tekin alvarlega. Hún fékk í alvörunni viðmótið eins og hún sé bara alltaf úti að týna blóm en hún er í rauninni í hörðum lyfjabransa. Mér finnst líka mjög skrýtið að ætla að eitthvað viðkvæmt og fallegt sé kvenlegt en ekki karlmannlegt.“

Þessi viðmælandi lenti í heldur undarlegum aðstæðum þegar hún hitti fjárfesta. „Þessi tiltekna kona nefndi dæmi um það að hún fór kannski á fund með fjárfestum sem leist ekkert of vel á hugmyndina og voru ekki alveg tilbúnir til að keyra á hugmyndina með henni. Svo fóru þeir heim og töluðu við eiginkonur sínar og heyrðu þá að þetta væri mjög sniðugt og mættu jafnvel með eiginkonur sínar á fjárfestafundi viku síðar. Henni þótti það mjög sérstakt og þetta er ekki beint viðmótið sem þú vilt fá. Þetta fyrirtæki er mjög áberandi í dag og er að mínu mati eitt af flottustu nýsköpunarfyrirtækjunum á landinu.“

Kom á óvart að fyrirmyndirnar hefðu rekist á hindranir

Snæfríður segir að hún sé afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að vinna rannsóknina. „Þessi ritgerð skiptir mig mjög miklu máli og það var mjög fróðlegt að skrifa hana. Það er ótrúlega mikilvægt að konur fái stað í atvinnulífinu og líka í þessu umhverfi vegna þess að frumkvöðlastarfsemi skiptir svo miklu máli fyrir samfélög, fyrir efnahagslegan vöxt og annað. Við þurfum einhvern veginn að hafa þessar fyrirmyndir líka. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að hitta viðmælendur mína og heyrt þeirra sögu og svo miðlað henni einhvern veginn.“

Aðspurð segir Snæfríður mikilvægt að fjölbreytt flóra fólks komi að frumkvöðlastarfi í landinu en að það hafi komið henni mikið á óvart hvað viðmælendur hennar höfðu rekist á margar hindranir á sínum ferli. „Það kom mér í alvörunni á óvart hvernig viðmóti sumar af þessum konum hafa mætt því að þegar ég horfi á þær finnst mér þær algjörar neglur, sjúklega flottar og þær eru fyrirmyndir mínar.

Það er svolítið sláandi að heyra hvernig viðmóti þær hafa mætt á sínum ferli. Þó að þeirra reynsla endurspegli ekki reynslu hverrar og einnar konu í frumkvöðlastarfi þá er hún samt til staðar og mér finnst alveg nógu slæmt að þær hafi kannski lent í einhverju svona skrýtnu viðmóti, einkennilegum athugasemdum og/eða vantrú á þeirra hugmynd.“