Þörf á einstaklingsmiðaðri þjónustu fyrir þau sem nota vímuefni í æð

Elísabet Brynjarsdóttir, fráfarandi forseti Stúdentaráðs og hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði.

Elísabet Brynjarsdóttir, fráfarandi forseti Stúdentaráðs og hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði.

Frú Ragnheiður, skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins í Reykjavík, hefur verið starfandi síðan 2009 og er stýrt af Svölu Jóhannesdóttur. Markmið verkefnisins er að ná til einstaklinga sem nota vímuefni í æð og þeirra sem eru heimilislausir og bjóða þeim skaðaminnkandi aðstoð í formi nálaskiptaþjónustu og heilbrigðisþjónustu.  Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll, einskonar heilbrigðisþjónusta á hjólum, sem ekið er um götur höfuðborgarsvæðisins sex kvöld í viku, frá klukkan 18 til 22. Um 80 sjálfboðaliðar starfa hjá Frú Ragnheiði. Á hverri vakt eru þrír sjálfboðaliðar; einn heilbrigðisstarfsmaður, einn almennur sjálfboðaliði og einn bílstjóri. Jafnframt er læknir sem sinnir bakvakt. Árið 2018 leituðu 455 einstaklingar til Frú Ragnheiðar og var heimsóknarfjöldinn 3.854.

Þeir sem sækja þjónustu Frú Ragnheiðar eru jaðarsettir einstaklingar sem mæta oft fordómum og skilningsleysi í samfélaginu. Þjónustan sem um ræðir er í formi aðhlynningar, umbúnaði sára, sýklalyfjameðferðar, almennar heilbrigðisskoðunar, ráðgjafar og sálræns stuðnings. Þá geta skjólstæðingar einnig fengið hreinan sprautubúnað til vímuefnanotkunar í æð, næringu, hlý föt, svefnpoka, hreinlætisvörur og fleira. Einnig er hægt að skila nálaboxum til Frú Ragnheiðar, en notkun þeirra kemur í veg fyrir að notaður sprautubúnaður verði eftir á götum borgarinnar eða  settur í ruslatunnur. Árið 2018 fargaði verkefnið 2.670 lítrum af notuðum sprautubúnaði.

Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs, er nýráðinn hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði og ber hún meðal annars ábyrgð á  faglegu utanumhaldi á líkamlegri heilbrigðisþjónustu í verkefninu.

Mikil þörf á þjónustu Frú Ragnheiðar

Elísabet segir að þjónusta Frú Ragnheiðar sé nauðsynleg mörgum. „Ég byrjaði sjálf sem sjálfboðaliði fyrir ári síðan og það sem kom mér mest á óvart, þar sem ég hef bakgrunn sem hjúkrunarfræðingur, er hvað það er mikil þörf á heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi einstaklinganna. Það eru svo margar hindranir sem þessi hópur mætir, t.d. þegar þau ætla að komast á staði, t.d. í læknaviðtöl og á bráðamóttökuna, opnunartíminn, kostnaðurinn, allt þetta hefur áhrif og því draga þau úr því að mæta. Svo hafa margir neikvæða reynslu af heilbrigðiskerfinu, að heilbrigðisstarfsfólk sýni þeim fordóma og hafi ekki skilning á þeirra stöðu.“

Fjarlægja forræðishyggjuna

En hvernig nálgast Frú Ragnheiður skjólstæðinga sína? „Þetta er þjónusta sem skjólstæðingar okkar sækja á sínum forsendum. Þau hringja í okkur og biðja um að fá að hitta okkur. Við nálgumst þau í þeirra nærumhverfi og veitum þeim þar af leiðandi mjög góða nærþjónustu,“ segir Elísabet og leggur áherslu á að mikilvægt sé að mæta fólki og samþykkja það á þeim stað sem það er statt á hverjum tíma.

„Við hlustum á hverjar þeirra þarfir eru núna og dæmum þau ekki fyrir aðstæðurnar sem þau eru í, eða fyrir það sem hefur gerst í fortíðinni. Við reynum einnig að valdefla einstaklingana þannig að þau finni fyrir ákveðinni sjálfstyrkingu sem getur mögulega stuðlað að því að þau sjái fyrir sér einhver skref í jákvæða átt. Heilt á litið þá nálgumst við einstaklingana af virðingu, kærleika og umhyggju, eins og við myndum nálgast allt annað fólk í raun og veru og styrkjum þau á þeim stað sem þau eru í dag. Við erum ekki að segja þeim hvað þau eigi að gera, við tökum forræðishyggjuna algjörlega út úr menginu.”

Lærdómsrík reynsla

Elísabet telur að í samfélaginu leynist fordómar og fyrirframgefnar hugmyndir um fólk sem notar vímuefni í æð. „Það sem ég hef lært mest er hvað það er auðvelt að eiga samskipti við þennan hóp. Maður hefur lært svolítið ómeðvitað af samfélaginu að maður eigi t.d. að taka sveig fram hjá „þessum körlum“ á Austurvelli og að maður eigi ekki að horfa á eða eiga samskipti við einstaklinga sem eru mikið undir áhrifum.

Svo hef ég líka komist að því hvað það er sterk steríótýpa af skjólstæðingshópnum okkar, þetta er í rauninni bara yndislegt og ljúft fólk sem þarf að uppfylla sömu þarfir og ég og þú. Þetta er bara fólk sem þarf hlýju, virðingu, að það sé hlustað á sig og að þeim sé mætt á þeim stað sem þau eru.“

Frú Ragnheiður 2.jpg

Hópur sem þarf einstaklingsmiðaða þjónustu

Elísabet telur að þjónustan sem umræddur hópur fái í dag þurfi að vera miklu einstaklingsmiðaðri. „Það þarf að vera svigrúm fyrir þennan hóp, þau ganga kannski ekki beint eftir klukkunni eins og við. Þau þurfa sveigjanleika hvað varðar t.d. að geta mætt seinna, þau eru „starfandi“ seinni partinn og á kvöldin, þegar flest úrræði loka klukkan fjögur, t.d. félagsþjónustur og mörg stuðningsteymi.

En það er mikil vitundarvakning, finnst mér, hjá ríkinu og sveitarfélögum, um hvað þessi hópur þarf og úrræðin sem þau þurfa. Það er í kortunum að fjölga sértækum búsetuúrræðum fyrir heimilislausa sem glíma við vímuefnavanda hjá Reykjarvíkurborg og að opna neyslurými. Þetta eru svona fyrstu skrefin í áttina að því að draga úr  þessari miklu refsistefnu sem hefur verið í samfélaginu gagnvart einstaklingum með vímuefnavanda.“

Hópurinn sem leitar sér aðstoðar hjá Frú Ragnheiði þarf aðstoð við ýmsa þjónustu sem ekki er alltaf einfalt að sækja sér í kerfinu. „Það sem þyrfti í rauninni væri að þessi þjónusta sem Frú Ragnheiður býður upp á væri í þeirra umhverfi, á stað sem þau geta nálgast auðveldlega, þar sem einstaklingarnir fá aðstoð við að hnýta alla lausu hnútana sína, til dæmis eins og panta tíma hjá félagsráðgjafa, fá aðstoð við að fylla út skjöl, panta tíma hjá heimilislækni, aðstoð við að komast í vímuefnameðferð og svo framvegis. Þjónustan hjá Frú Ragnheiði hefur þróast svolítið í þessa átt á daginn en við náum eingöngu að sinna bráðatilfellum,“ segir Elísabet.

Þversögn að enn sé refsað fyrir neysluskammta

Þrátt fyrir skref í rétta átt er ákveðin þversögn í því að enn sé hægt að refsa fólki fyrir að hafa neysluskammta á sér, að mati Elísabetar. „Það er verið að undirbúa frumvarp um neyslurými á Alþingi. Neyslurými er skilgreint sem sértækt heilbrigðis- og skaðaminnkunarúrræði þar sem einstaklingar geta komið með sinn eiginn neysluskammt, notað í æð á öruggum stað þar sem heilbrigðisstarfsmaður er til staðar og getur gripið inn í ef bráðatilfelli gerist. Jafnframt er veitt heilbrigðisþjónusta á staðnum og önnur aðstoð sem markhópurinn þarf. Frumvarpið gengur út á að veita friðhelgi á vímuefnum í neyslurými og að þessi ákveðni litli markhópur hafi öruggan stað til að nota í æð. Á sama tíma er enn ólöglegt að vera með neysluskammt á sér úti í samfélaginu.

Við erum klárlega að taka skref í rétta átt með því að opna neyslurými og ná þannig að draga úr því að fólk látist af ofskömmtunum, en mér finnst svolítið óhjákvæmilegt að við hættum að taka neysluskammta og refsa einstaklingum með vímuefnavanda. Mér finnst einnig að það þurfi að viðurkenna þennan hóp sem sjálfstæða einstaklinga sem að annað hvort eru að taka sjálfstæðar ákvarðanir að nota vímuefni eða hins vegar einstaklinga sem eru að kljást við veikindi, áföll og margs konar hluti sem þau hafa orðið fyrir,“ segir Elísabet.

Bjóða nú upp á sýklalyfjameðferðir

Í lok febrúar 2018 var innleidd sýklalyfjameðferð í Frú Ragnheiði í samstarfi við lækna sem eru á bakvöktum í verkefninu. „Ávísun sýklalyfja til skjólstæðinga við sýkingum, í samstarfi við þá lækna sem eru á bakvakt í verkefninu, er mikilvæg því þannig er hægt að grípa fyrr inn í og koma jafnvel í veg fyrir innlagnir á spítala og flóknari meðferðir.

Á aðeins átta mánuðum, frá því að við hófum sýklalyfjameðferðir í bílnum, höfum við aðstoðað 40 einstaklinga við að fá sýklalyf og höfum fylgt öllum sýklalyfjameðferðum eftir með skráðum endurkomum. Af þessum 40 einstaklingum kláruðu 37 einstaklingar meðferð hjá okkur án innlagnar á spítala,“ segir Elísabet.

Fjölbreyttur og sífellt stækkandi hópur

Hópurinn sem sækir þjónustu Frú Ragnheiðar er fjölbreyttur. „Einstaklingarnir eru á mjög misjöfnum stað í sinni vímuefnanotkun, margir eru í daglegri notkun og aðrir nota í æð nokkrum sinnum á ári, margir af okkar skjólstæðingum eru heimilislausir og sumir eiga sitt eigið húsnæði.“

Þá var mikil aukning í aldurshópnum 18-20 ára árið 2018, sem er sérstaklega viðkvæmur hópur. „Sá hópur hefur í rauninni þrefaldast hjá okkur, fór úr 12 einstaklingum árið 2017 í 36 einstaklinga 2018. Þetta þarf ekki endilega að þýða að það sé mun meiri vímuefnavandi hjá þessum aldurshópi, það getur líka þýtt að þau treysti okkur betur og séu meira að leita til okkar, sem er frábært því þá getum við reynt að aðstoða þau.

Þegar einstaklingar á aldrinum 18 til 20 ára leita í bílinn þá bjóðum við þeim í kjölfarið auka þjónustu hjá okkur. Við reynum að veita þeim sérstaka eftirfylgni, eins og skimum eftir hvernig stuðningsnetið þeirra er, hvar þau séu með samastað og hvort þau vilja aðstoð við að komast í vímuefnameðferð, til læknis og tengjum þau við félagsþjónustuna.

Árið 2019 ætlum við að leggja áherslu á að reyna að ná til kvenna en þær eru aðeins 25% af þeim sem leita til okkar, þannig að við verðum að fara í sértækar aðgerðir til að ná betur til kvenna og styrkja þær,“  segir Elísabet.

Frú Ragnheiður 3.jpg

Aðspurð segir Elísabet að þörfin á þjónustu Frú Ragnheiðar sé sífellt að aukast. ,,Alveg hundrað prósent. Frú Ragnheiður er eina starfandi yfirlýsta skaðaminnkunarþjónustan á Íslandi. Það er Ungfrú Ragnheiður starfandi á Akureyri og það er verið að skoða að setja upp svipað verkefni á Suðurnesjunum. En það þarf meira af formlegum skaðaminnkunarúrræðum, það þarf t.d. fleira starfsfólk í Frú Ragnheiði. Og svo er þetta líka hugmyndafræði sem allt heilbrigðiskerfið ætti að tileinka sér.“