Langar að læra allt um hamingjuna

„Mig langar svo mikið að rannsaka þetta því það veit enginn hvað hamingjan er,“ segir Torfi Þór Tryggvason. Stúdentablaðið/Ragnhildur Þrastardóttir

„Mig langar svo mikið að rannsaka þetta því það veit enginn hvað hamingjan er,“ segir Torfi Þór Tryggvason. Stúdentablaðið/Ragnhildur Þrastardóttir

„Meginatriðið er í raun ekki viðtalið sjálft. Ég vona að viðtölin fái viðmælendur mína til að ígrunda hvað það sé sem geri þá hamingjusama,“ segir Torfi Þór Tryggvason stofnandi Instagram reikningsins „Hvað er hamingja?“. Á síðunni birtir Torfi viðtöl við fólk um hamingjuna.

„Ég vil að þessi síða geti orðið til þess að fólk ígrundi lífið sitt af því ég held að slík ígrundun stuðli mjög mikið að því að fólk upplifi sig raunverulega hamingjusamt og sé meira vakandi fyrir hamingjunni,“ segir Torfi.

Blaðamaður Stúdentablaðsins hitti Torfa á dögunum á Stofunni. Torfi er glaðbeittur ungur maður sem stundaði nám í tölvunarfræði áður en hann færði sig yfir í tómstunda- og félagsmálafræði. Áður en Torfi var tekinn tali tók hann blaðamann Stúdentablaðsins tali og spurði hann um hamingjuna. Viðtalið fékk blaðamanninn til að velta hamingjunni umtalsvert fyrir sér. Torfi spyr viðmælendur sína þriggja spurninga sem allar snúa að hamingjunni.

Jákvæðnin í fyrirrúmi

Spurningarnar eru „hvað er hamingja“, „hvað gerir þig hamingjusama/n“ og „hvaða þættir lífsins heldur þú að stuðli mest að hamingjunni?“

„Ég spurði sem sagt báða kennarana mína í tómstundafræðinni hvort þessar spurningar kæmu vel út. Ég vil ekki að þetta sé neikvætt, vil ekki spyrja „hvað kemur í veg fyrir hamingjuna þína“, ég vil reyna að einblína á að þetta sé jákvætt. Meginhugmyndin á bak við það að tala við þau var að fá samþykki, vita hvort ég ætti að gera þetta, hvort það væri sniðugt að gera þetta og fá annað par af augum til að horfa á þetta.“

Hugmyndin kviknaði einmitt í náminu. „Ég sem sagt sat í lífsleiknitíma í tómstunda- og félagsmálafræði og kennarinn spurði: „Hvenær voruð þið síðast hamingjusöm?“ Ég fékk svona melankólíukast og fór að spá í því hvenær mér leið síðast vel. Svo sat ég á Loft Hostel síðar um daginn og fór fann að mér leið bara drullu vel akkúrat þá. Þetta kveikti einhverjar pælingar hjá mér, af hverju mér liði vel núna, hvað það væri sem léti mér líða vel, ef þetta er það sem lætur mér líða vel, hvað ætli það sé sem lætur öðru fólki líða vel?

Ég fór að hugsa um að það væri gaman að gera eitthvað, ég vissi bara ekki alveg hvað. Ég var nýbúinn að kaupa mér flotta myndavél, mér finnst gaman að taka myndir af fólki, að spjalla við fólk og hef mjög gaman af því að ígrunda lífið og tilveruna. Því fór ég að spá í því að það væri forvitnilegt að taka viðtöl við fólk og kanna hvað það sé sem lætur því líða vel. Hvað er það sem gerir fólk hamingjusamt? Þá urðu þessar þrjár spurningar til.“

Umræða sem breytir samfélaginu

Torfi segir að umræða um hin ýmsu málefni á samfélagsmiðlum hafi veitt honum innblástur. „Það eru til svo flottar síður eins og til dæmis Fávitar og Karlmennskan, sem ég fylgist mikið með og er ótrúlega stoltur af Sólborgu og Þorsteini sem eru með þessar síður. Þau eru búin að hafa svo mikil samfélagsleg áhrif og það er þetta sem hefur þau áhrif að samfélagið okkar breytist, það er þessi mikla umræða.

Þetta er ótrúlega mikilvægt en það er smá leiðinlegt að það sé lítið til í þessum stíl sem einblínir á jákvæðu hlutina. Þessar síður fjalla til dæmis um áreitni og neikvæðar staðalímyndir. Mér fannst mikilvægt fyrir mig að einblína á eitthvað sem er raunverulega gott, reyna að koma með smá jákvæðni inn í heiminn og það virðast allir bara vera ótrúlega ánægðir með það.“

Torfi hefur nú þegar tekið 28 viðtöl og það er mikil eftirspurn eftir því að komast í hamingjuviðtal. „Það eru allir mjög tilbúnir í að koma í viðtöl og fólk leitar til mín vegna þess. Viðtölin sjálf ganga svo ótrúlega vel og ég hef ekki lent í því að neinn sé ósáttur við viðtal enn sem komið er. Það er mikil jákvæðni í kringum þetta allt sem ég er mjög glaður með.“

Sjálfur óviss um skilgreiningu á hamingjunni

Sjálfur er Torfi ekki alveg búinn að átta sig á hamingjunni. „Ég var spurður að því áðan hvað ég myndi segja við þessum spurningum en ég held að ég myndi ekki svara því. Núna er ég bara svona að spá í því hvað gerir aðra hamingjusama og átta mig þá á sama tíma betur á því hvað það er sem gerir mig raunverulega hamingjusaman. Ég get ekki pinpointað það en þetta er kannski mín leið til að leita að því sem gerir mig meira hamingjusaman.“

Síðan sjálf veitir Torfa hamingju.  „Það veitir mér gleði og hamingju að finna að ég sé að gera eitthvað jákvætt fyrir samfélagið. Ég myndi ekki segja að ég væri mikið nær því að vita hvað geri mig raunverulega hamingjusaman en það gleður mig að vita að ég sé að gera eitthvað gott.“

Aðspurður segir Torfi að svörin sem hann fær við spurningunum komi honum ekki sérstaklega á óvart. „Svörin sjálf hafa ekki komið mér í opna skjöldu, það hefur frekar komið mér á óvart hversu mikinn meðbyr þetta verkefni hefur fengið.

Fólk er með mismunandi skoðanir en þetta rennur allt í sömu ánni. Ég held persónulega að allar manneskjur í heiminum vilji vera hamingjusamar og allt sem við gerum er gert með það að sjónarmiði að gera okkur hamingjusamari. Þrátt fyrir að svörin séu mismunandi þá svara öll með sinni sjón um það hvað mun koma til með að gera þau hamingjusöm, hvort sem það er að eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum, borða góðan mat, eiga mikinn pening, þetta eru allt mismunandi hlutir en þeir stuðla samt að sömu lokaniðurstöðunni.“

Mikilvægt að einblína á góðar stundir

Torfi kemur inn á tengingu efnahags og hamingju. „Sumir segja að peningar veiti þeim hamingju og ég held að það sé alveg rétt að að einhverju leyti stuðli peningar að hamingjunni en þá helst að hafa efni á grunnþörfum. Það hefur verið sannað að veraldlegir hlutir leggja ekki grunninn að langtímahamingju.

Síminn minn var til dæmis geðveikur fyrst þegar ég tók hann upp en nú tek ég hann upp og mér eiginlega gæti ekki verið meira sama um hann. Ég held að við þurfum að passa okkur pínu á því í þessu efnishyggjusamfélagi sem við búum í að hlutirnir sem við eigum skipta í raun engu máli. Maður þarf að einblína á það að eiga góð móment og búa til góðar stundir í staðinn fyrir að kaupa sér endilega nýjasta símann.“

Torfi ætlar að halda áfram með verkefnið um ókomna framtíð. „Ég vinn að þessu eins lengi og ég nenni. Mig langar að taka viðtöl við börn, unglinga, fólk á okkar aldri, fullorðið fólk og gamalt fólk. Ég er mjög spenntur fyrir því að átta mig á því hvað gerir mismunandi aldursstig hamingjusöm.

Mig langar svo mikið að rannsaka þetta því það veit enginn hvað hamingjan er. Hvatinn fyrir mig er að reyna að læra allt um hamingjuna og það getur bara vel verið að ég komi til með að skrifa bachelor ritgerðina mína um hamingjuna af því að það er svo ótrúlega forvitnilegt að allir séu með mismunandi  skoðanir. Á meðan ég er forvitinn þá held ég áfram að vinna í þessu.“

Hver sem er getur komið í haminguviðtal, þú getur fylgt verkefninu á Instagram, https://www.instagram.com/hvaderhamingja/ og jafnvel haft samband við Torfa þar.  „Allir mega komið í viðtal og bara því fleiri því betra. Ég held að ég sé með 30 manns á biðlista þannig að á meðan tíminn gefst þá er þetta ekki mikið vandamál,“ segir Torfi að lokum.