Tvítyngdar jólahefðir

Nú eru jólin á næsta leyti og því tilvalið að forvitnast svolítið um fjölbreyttar jólahefðir. Flestir á Íslandi eiga þó eflaust svipaðar hefðir enda lítið land og fámenn þjóð. Blaðamaður Stúdentablaðsins ræddi við tvítyngt fólk með mismunandi menningarlegan bakgrunn og bað viðmælendur að segja frá jólahefðunum sínum.

Adisa.JPG

Adisa Mešetović - Bosnía og Hersegóvínía:

Menningaraðlögun

Þar sem ég kem frá múslimskri fjölskyldu eru jól ekki haldin, en af því að við höfum verið á Íslandi núna í um 20 ár þá höfum við tekið upp nokkrar íslenskar hefðir eins og jólin. Á jólunum gerum við allt þetta týpíska, setjum upp jólatré og skreytingar, bökum smákökur, borðum góðan mat og svo eru auðvitað jólapakkar. Foreldra okkar systkinanna hefur alltaf langað að aðlaga okkur að menningunni þannig að við höfum haldið okkar útgáfu af jólunum. Bæði til að vera með og til þess að vera ekki öðruvísi.

Týpísku hefðirnar

Við borðum alltaf góðan mat eins og hangikjöt. Hefðin okkar saman er að púsla og við getum gert það tímunum saman. Sem krakkar fengum við litlar og skemmtilegar gjafir í skóinn frá jólasveininum alla 13 dagana. Uppáhaldið mitt var að fá nammi eins og örugglega hjá flestum. Ég fékk aldrei kartöflu en átti það til að stríða yngri bróður mínum með því að setja kartöflu í skóinn hans.

Berglind.JPG

Berglind Bjørk - Færeyjar

Kjötlaus jól

Síðustu þrenn jól höfum við borðað malt-grís með kóksósu, brúnaðar kartöflur, rauðkál, baunir og salat. Síðustu jól ákvað ég að hætta að borða kjöt og nú er fjölskyldan mín búin að minnka kjötneyslu mjög mikið. Mér finnst ólíklegt að við munum borða kjöt um jólin eða þá hafa val.

Heimagert jólakonfekt

Við búum til jólakonfekt úr súkkulaði, núggati, marsípani, hnetum, möndlum og fleiru.

Ég bý alltaf til Toblerone-ís en pabbi býr til sörur og mamma bakar engiferkökur. 

Aðsent jólatré

Það er gaman en samt ekki að segja frá því að jólatréð sem er niðri í bæ í Þórshöfn er sent frá Reykjavík. Reykjavík er vinabær Þórshafnar og þetta er gjöf frá Reykjavík til þeirra skilst mér. 

Klifurnissur

Klifurnissur er jólaskraut sem við hengjum alls staðar eins og þær séu að klifra. Þetta er svipað og „Elf on the shelf“. Við gerðum líka oft jólastjörnur úr pappír en ekki lengur.

Melta jólamatinn úti

Við höfum oftast farið út að ganga eftir matinn síðan ég man eftir mér. Það fer samt mikið eftir því hvernig veðrið er enda er oft snjóstormur og þá gerum við það ekki. Það er svo gott að fara í smá gönguferð í kuldanum og snjónum með fjölskyldunni eftir matinn. 

Jólakötturinn tískulögga

Þegar ég var yngri keypti ég mér alltaf ný fín föt fyrir jólin vegna þess að ég vildi ekki fara í jólaköttinn. Núna er ég annaðhvort í fínum fötum sem ég á eða jafnvel bara í kósýfötum eða náttfötum.

Umhverfisvænni jól

Á Þorláksmessu bý ég til heitt súkkulaði og við vinkonurnar röltum með það um bæinn í fjölnota-máli í staðinn fyrir að kaupa heitt súkkulaði í „take-away“. Ég er alls ekkert mikil jólamanneskja og mér finnst jól og áramót vera mikill kvíðatími. Mér finnst jólin snúast um það að vera með  fjölskyldunni. Skemmtilegast finnst mér að baka fyrir jólin, en þegar ég var lítil tók amma í Færeyjum alltaf færeyska jóladagatalið upp á spólu og sendi mér það með jólapökkunum. Það var toppurinn að horfa á það. Stundum komu pakkarnir þó of seint.

Hanna+La%CC%81ra.jpg

Hanna Lára Jóhannsdóttir - Ungverjaland 

Blandaðar hefðir

Ég er hálfíslensk og hálfungversk þannig að jólahefðirnar heima hjá okkur eru svolítið blandaðar. Við setjum til dæmis alvöru kerti á jólatréð en við þorum bara að hafa kveikt á þeim í mínútu á meðan við syngjum ungversk jólalög klukkan 17:00, en þá er hún orðin 18:00 í Ungverjalandi og jólin formlega hafin.

 Jólafiskur

Við borðum týpískan íslenskan jólamat, en í Ungverjalandi er oft borðaður fiskur því þar þykir hann svo fínn. Einnig er hefð hjá okkur ef við höldum jólin í Ungverjalandi að borða Kürtos kalács, en það er sætt eldbakað brauð sem er oft sykrað, með kókosmjöli eða með möndlum og kanilsykri. Við opnum síðan pakkana á aðfangadagkvöld eins og er gert á Íslandi.

ella (1).jpg

Ella Pamela Leonen Marquez - Filippseyjar

Jólin byrja snemmal

Á Filippseyjum byrja jólin snemma. Þegar fyrsti ber-mánuðurinn, SeptemBER, er kominn (það þýðir jól) byrjum við að setja upp jólaljós, jólatré og alls konar jólaskraut. Þá byrjum við líka að kaupa jólagjafir. Flestir eru rómversk-kaþólskir þannig að jólin eru einn af stórhátíðardögunum á Filippseyjum.

Næturmessur

Frá 16. desember til 24. desember stundum við messu sem er kölluð „næturmessa“. Messan stendur yfir frá kl. 3 á nóttunni til kl. 5 og er haldin á sunnudeginum, eða sunnudögunum, á þessu tímabili. Þessa menningu fengum við frá Spánverjum í gamla daga.

Litrík jól

Skólafólk og nemar eru alltaf með sér verkefni, t.d. að föndra eða búa til eigin jólaljós (Parol á tagalog) með bambus og pappír og koma með í skólann til að skreyta. Jól úti í Filippseyjum eru alltaf litrík. Níu dögum fyrir jól syngja börnin á Filippseyjum jólalög fyrir framan húsin í hverfinu sínu. Ég man að ég þurfti að búa til mín eigin hljóðfæri. Eftir sönginn fengum við annaðhvort sælgæti eða peninga frá áheyrendum. Meðan fjölskyldurnar eru heima hengja þær upp stóra sokka fyrir börnin, jafnvel þótt sokkarnir séu troðfullir af gjöfum.

Fjólublá klístruð jólakaka

Eftir miðnæturmessu fyrir utan kirkjuna er nauðsynlegt að fá Puto bumbong, fjólubláa klístraða hrísgrjónaköku, en það er algengasta jólagóðgætið. Filippseyingar borða mikið af sætu og söltu, sérstaklega um jólin. Til dæmis sæta skinku sem er svipuð og hér á Íslandi nema sætari og gerð með púðursykri og ananas. Við köllum það Hamon og við borðum með hrísgrjónum. Á jóladag erum við bara heima með fjölskyldunni áður en við fáum okkur að borða. Við syngjum jólalög í karíókí, leikum leiki með börnunum og svo opnum við jólagjafir.    

Ella.JPG
LífstíllIngveldur Gröndal