Umhverfisvænar jólagjafir

Grafík/Elín Edda

Grafík/Elín Edda

Núna nálgast jólin óðfluga og með þeim kemur jólaskapið en líka jólastressið. Stress yfir því að finna gjafir handa öllum, stress yfir því að eiga kannski ekki fyrir þeim og stress og vonleysi yfir neyslu og yfirvofandi heimsendi. En það er of alvarlegt fyrir þessa grein. Hér munum við tala um jólagjafir (með einungis lítilsháttar neysluskömmum). Oft gleymum við okkur í neysluflóðbylgju jólanna og fyllumst einhvers konar kaupæði en þá er gott að muna eftir vistvæna gjafapýramídanum. Stúdentablaðið hefur tekið saman nokkrar hugmyndir að gjöfum úr þessum flokkum.

Gefðu minningar

Það er hægt að kaupa gjafabréf í alls kyns upplifanir og því auðvelt að gefa minningar sem munu lifa áfram. Þú getur meðal annars gefið gjafabréf í nudd, kaffikort í Hámu (eða öðru kaffihúsi sem þú veist að manneskjan sækir), sundkort, kort í líkamsræktarstöð, Menningarkort eða leikhúsmiða. Þú getur líka gefið miða á tónleika eða áskrift að bókum, tónlistarveitu, hljóðbókaveitu eða streymisveitu. Svo geturðu líka skellt þér með og orðið hluti af minningunni, boðið í ísdeit, hjólaferð eða út að borða. 

Gefðu gjöf sem gefur

UN Women selur táknrænar gjafir sem munu breyta lífi kvenna. Þú getur stutt við nýbakaðar mæður, gefið egypskum konum skilríki, veitt sjö konum á flótta frumkvöðlaþjálfun og tryggt starfsemi griðarstaðs þar sem konur á flótta fá öruggt skjól og atvinnutækifæri. 

Unicef selur sannar gjafir sem munu hjálpa börnum og fjölskyldum í neyð. Þú getur meðal annars gefið hlýjan vetrarfatnað, moskítónet, námsgögn, bólusetningar og vatnshreinsitöflur.

Hjá Hjálparstarfi kirkjunnar getur þú sent barn í skóla, gefið fjölskyldu hænur eða geitur sem tryggja fæðuöryggi þeirra, gefið fræ, tré til gróðursetningar og hreint vatn. 

Hjá Rauða Krossinum getur þú sent barn í skóla, gefið neyðarvarnarteppi eða gefið þremur stúlkum fjölnota dömubindi sem munu gefa þeim meira frelsi.

Gefðu tíma eða kunnáttu þína

Ertu fróð/ur/tt um náttúruna? Þú getur boðið í náttúrugöngu þar sem þú ert sérstakur leiðsögumaður. Ertu pípari, smiður, bifvélavirki, snyrtifræðingur eða býrðu yfir sérstökum hæfileikum á einhverju sviði án þess þó að vinna við það? Býrðu yfir listrænum hæfileikum, ertu veislustjóri af náttúrunnar hendi eða gerirðu ótrúlega gott súrdeigsbrauð? Þú getur gefið foreldrum fríkvöld og börnunum þeirra kósíkvöld. Þetta er einungis smábrot af þeim hæfileikum sem þú gætir boðið í jólapakkann. Veldu samt eitthvað sem þú kannt, viðtakandinn verður efalaust mjög þakklátur fyrir svona persónulega gjöf. 

Búðu til nýtt úr notuðu

Áttu plöntu sem þú getur gefið afleggjara af? Áttu spil sem þú spilaðir einu sinni en það náði þér ekki alveg en Jóna frænka elskar það? Gefðu henni það í jólagjöf! Gefðu flík sem þú notar aldrei og heldur að einhver annar myndi njóta meira. Gefðu bakka sem þú notar aldrei, þú getur málað hann og hann verður eins og nýr. Gefðu bók sem þú átt en sérð ekki fyrir þér að lesa aftur. Mörg bókasöfn eru með bókavagn fyrir framan þar sem fólk getur skilið eftir gefins bækur. Margar þeirra eru mjög vel farnar og frábærar í jólapakkann. Gefðu bókasafnsbækur og fáðu fólk til þess að skila þeim eftir jólin. Þá safnast þær ekki saman upp í hillu hjá þeim ólesnar. Gallinn við þennan möguleika er að ef að fólk skilar bókunum seint (eða ekki) gætir þú setið eftir með sekt. Þú getur því aðeins „gefið“ fólki sem þú treystir til þess að skila þeim, og helst á réttum tíma, slíka gjöf.

Grafík/Elín Edda

Grafík/Elín Edda

Kauptu notað

Skelltu þér í Hertex, Rauða Krossinn, Góða Hirðinn, Extraloppuna, Barnaloppuna eða á flóamarkað eða skiptimarkað. Hvergi annars staðar er eins satt að eins manns drasl sé annars manns fjársjóður. Húsgögn, föt, bækur, spil og myndin af stráknum sem grætur sem allir virðast eiga. Þarna fæst allt sem þig gæti vantað eða langað í inn á heimilið, í garðinn eða í jólagjöf.

Búðu eitthvað til

Kanntu að prjóna? Hekla? Krosssauma? Þú getur prjónað vettlinga, heklað skífur sem koma í stað einnota bómullarskífa, saumað fallega mynd eða texta. Þú getur búið til kerti, líkamsskrúbb, sápu, teiknað, málað, föndrað eða bara hvað sem er sem þér dettur í hug, ekki láta himininn stoppa þig, gefðu leikþátt, jógastund eða gjafabréf í göngutúr. Heimagerðar matarjólagjafir eru líka alltaf vinsælar. Þú getur gefið jólarauðrófur, ólífuolíu, konfekt, smákökur, döðlugott, hummus eða kókoskúlur. Þú getur þrifið krukkur, dósir eða önnur ílát og notað þau í stað þess að henda þeim. Ef þú heldur að þú kunnir ekki að búa til neitt sniðugt er YouTube alltaf mikil hjálp, svo eru örugglega einhverjir sem geta komið þér af stað og kennt þér tökin.

Kauptu vistvænt

Búðir eins og Vistvera og Mena selja vistvænar vörur sem hjálpa fólki að draga úr einnota lífsstíl. Þar má meðal annars finna sápu- og sjampóstykki, tannbursta úr tré, tannkremstöflur, baðbombur, bývaxklúta, svitalyktareyði, eldhúsáhöld úr tré, vefnaðarvöru úr bómul og fjölnota túrnærbuxur. Í Vistveru er áfyllingarbar með handsápu, uppþvottalög, argan olíu og húðkrem. Í Mena er hægt að kaupa áfyllingar í snyrtivörur sem þau selja. Þar má meðal annars finna fljótandi farða, púður, maskara og augnskugga. 

Kauptu nýtt

Ekki gleyma að spyrja þig spurninga áður en þú kaupir nýjan hlut. Hversu lengi mun þessi hlutur endast? Hversu langan tíma tekur það fyrir hann að brotna niður í náttúrunni? Mun viðtakandinn nýta þennan hlut? Ef þú veist ekki hvað þú vilt gefa en vilt endilega gefa eitthvað búðarkeypt getur þú líka gefið gjafakort. Þá getur viðtakandinn keypt það sem hann vill eða vantar og minni líkur eru á því að hluturinn dagi uppi í hillu og safni ryki þangað til að honum er hent við næstu flutninga. Rafbækur eru einnig sniðug gjöf ef þú vilt gefa nýtt en forðast sóun. 

Innpökkun

Ekki gleyma að hugsa umhverfisvænni kosti þegar kemur að því að pakka inn. Þú getur endurnýtt gjafapappír og poka, pakkað inn í dagblöð og tímarit, nýtt gamla skókassa eða búið til gjafapoka úr flíkum eða efni sem þú notar ekki lengur og beðið fólk um að skila þeim eftir jól.