„Við vorum orðnar óþolinmóðar“

Samþykkt hefur verið að auglýsa eftir þriðja sálfræðingnum í haust og á viðkomandi að geta hafið störf í janúar 2020. Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Samþykkt hefur verið að auglýsa eftir þriðja sálfræðingnum í haust og á viðkomandi að geta hafið störf í janúar 2020. Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Um yfirlýsingu Stúdentaráðs vegna tafa á ráðningu sálfræðings við Háskóla Íslands

Í sumar lýsti Stúdentaráð Háskóla Íslands yfir áhyggjum af þeim töfum sem orðið hafa á ráðningu sálfræðings við háskólann. Forsaga málsins er sú að árið 2017 lögðu þáverandi stúdentaráðsliðar Elísabet Brynjarsdóttir, síðar forseti Stúdentaráðs 2018-2019, og Bjarni Halldór fram tillögu um að krefjast þyrfti aukins fjármagns í geðheilbrigðismálum. Síðan þá hefur skólinn samþykkt að verja 20 milljónum króna í málaflokkinn og hefur verið stofnaður starfshópur varðandi geðheilbrigðismál stúdenta og um hvernig eigi að verja þessu fjármagni en forseti Stúdentaráðs á sæti í þeim hópi. Þá lofaði háskólinn að ráða tvo sálfræðinga til viðbótar við þann eina sem þegar starfaði hjá skólanum. Annar þessara tveggja hefur þegar verið ráðinn en ekkert bólaði á hinum þegar áðurnefnd yfirlýsing var gefin út. 

Tildrög að yfirlýsingunni

Jóna Þórey, forseti SHÍ, sótti fund síðastliðið sumar hjá starfshópi um geðheilbrigðismál sem hún á sæti í. Þar kom fram að skortur á skrifstofuhúsnæði væri ástæða þess að þriðja sálfræðinginn væri ekki enn ráðinn líkt og stúdentum hafði verið lofað haustið 2018 og nálgaðist hún því oddvita fylkinganna um málið. Áðurnefnda yfirlýsingu sömdu þær Jóna Þórey Pétursdóttir forseti Stúdentaráðs og Eyrún Baldursdóttir oddviti Röskvu í samráði við Margréti Ósk Gunnarsdóttur, þáverandi oddvita Vöku. Forseti ráðsins hélt þá á fund rektors og aðstoðarrektors með yfirlýsinguna. Hún tjáði þeim ástæður tafa á ráðningunni sem voru meðal annars skortur á skrifstofuhúsnæði fyrir sálfræðinginn. Í kjölfarið rataði erindið á fund starfshópsins um geðheilbrigðismál og hefur nú verið samþykkt að auglýsa eftir þriðja sálfræðingnum í haust og á viðkomandi að geta hafið störf í janúar 2020. Hér er því óneitanlega um árangursríka vinnu ráðsins að ræða en það hefur haldið sínu striki frá 2017. 

Frá því að upphafleg tillaga var lögð fyrir Stúdentaráð hefur margt frábært gerst. Stúdentaráð fór í greinarskriftarátak, Hugrún geðfræðslufélag fær nú styrki frá skólanum inn í sitt starf, Sálrækt er úrræði með viðtölum og hópmeðferðum á vegum klínískra nema í sálfræði og HAM-hópmeðferðir eru einnig nýtt úrræði. 

 Blaðamaður Stúdentablaðsins ræddi við Eyrúnu Baldursdóttur, oddvita Röskvu, um tillöguna en hún sagði: „Við vorum sammála um að þetta málefni ætti enn að vera þvert á fylkingar þar sem Elísabet Brynjarsdóttir og Bjarni Halldór voru saman með þetta upphaflega. Í rauninni vorum við bara orðnar óþolinmóðar að bíða eftir ráðningu á þriðja sálfræðingnum, sér í lagi þar sem háskólinn var búinn að lýsa því yfir að miklar framfarir væru að eiga sér stað í málaflokknum, þegar þau voru í raun ekki búin að gera allt sem þau lofuðu.“ Eyrún sagði um tildrög málsins að fyrir tveimur árum hafi Röskvuliðar til dæmis farið á fund rektors og afhent honum kröfur fylkingarinnar um geðheilbrigðismál. 

Þriðjungur háskólanema sýnir einkenni klínísks þunglyndis

Eins og að framan greinir hefur nú fengist samþykki fyrir að auglýsa eftir þriðja sálfræðingnum. Það liggur því í augum uppi að móttökur yfirlýsingarinnar hafi verið mjög jákvæðar. Þegar Eyrún var spurð um hvaða viðtökur hún hafi fengið í kjölfar yfirlýsingarinnar taldi hún viðbrögð stjórnenda bera þess merki að þau séu öll af vilja gerð. Það sé ekki bara vilji stúdenta að baki þessum málum heldur sýni rannsóknir einnig mikilvægi þess að eitthvað sé gert „Það var til dæmis gerð rannsókn árið 2017, bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri, sem sýndi að einn þriðji af háskólanemum sýndu einkenni klínísks þunglyndis. Við höfum ótrúlega margt sem styður við bakið á okkur. Það er önnur rannsókn í gangi um þessar mundir sem Jóhanna Bernharðs stýrir en við fengum kynningu á rannsókninni á síðasta stúdentaráðsfundi. Sú rannsókn sýnir einnig að kvíði, þunglyndi og streita séu stór vandamál meðal háskólanema. Í rannsókninni bera þau einnig saman aðra rannsókn sem Rúnar Vilhjálmsson stýrði en hún var gerð á landsvísu. Þegar þessar rannsóknir voru bornar saman kom í ljós að nemendur í háskóla sýndu meiri einkenni í þessum þremur flokkum en jafnaldrar þeirra á landsvísu.“

Úrræðin sem eru í boði í dag innan Háskóla Íslands hafa nánast öll komið til vegna baráttu stúdenta fyrir betri geðheilbrigðisþjónustu og hafa stjórnendur skólans getið þess við hvert tækifæri þegar úrræðin eru kynnt. Skólinn stærir sig því af þessu átaki en gleymir ekki hvaðan þrýstingurinn kom. Blaðamaður Stúdentablaðsins spurði Eyrúnu hver staðan í málaflokknum væri nákvæmlega um þessar mundir og hvaða úrræði væru í boði fyrir háskólanema eins og staðan er í dag: „Það eru tveir sálfræðingar starfandi um þessar mundir, báðir í fimmtíu prósent starfshlutfalli. Hjá þeim er bæði hægt að fara í einstaklingsviðtal og HAM-hópmeðferð. Einstaklingsviðtölin bjóðast nemendum gjaldlaust en HAM-meðferðin kostar 4.000 krónur. Öll þjónusta sem er á vegum Náms- og starfsráðgjafar HÍ stendur nemendum til boða endurgjaldslaust. Svo eru klínísku sálfræðinemendurnir einnig með úrræði í boði en einstaklingsviðtal hjá þeim kostar 1.500 krónur. Þeir eru einnig með Sálrækt, hópmeðferð sem byggir á HAM, hugrænni atferlismeðferð, en það er aðeins öðruvísi umgjörð í kringum hana en hefðbundna HAM-meðferð.“

Blaðamaður Stúdentablaðsins ræddi einnig við Özru Crnac, stúdentaráðsliða Vöku, en hún sagði að gott væri fyrir stúdenta að fylgjast vel með tölvupóstum þar sem úrræðin séu oft auglýst þar. Þá sagði hún umræðuna um úrræði innan skólans vera opnari: „Ég heyri það frá vinum mínum að þeir voru að hugsa um að panta tíma. Ég hef líka sjálf verið að hugsa út í það.“

Eyrún og Azra voru sammála um að að töf vegna stjórnsýslunnar á ráðningu þriðja sálfræðingsins væri óásættanleg, sérstaklega þar sem fjárveiting hafi verið komin í málið. „Við eigum ekki að þurfa að vera endalaust að þrýsta svo að eitthvað gerist.“ sagði Azra. Þær sammæltust einnig um að sú barátta sem Stúdentaráð hafi háð hafi óneitanlega skilað góðum árangri. „Þeir sem hafa nýtt sér þessa þjónustu svara stuttri könnun fyrir og eftir meðferð. Þær kannanir hafa sýnt fram á að meðferðin beri árangur. Þessi þjónusta, sem er að aukast, er að gera stúdentum mikið gagn. Það er nógu góð ástæða til þess að við eigum að halda baráttunni áfram,” sagði Eyrún. 

Stjórnvöld þurfa að hlúa betur að stúdentum

Líkt og rakið hefur verið skilaði yfirlýsing Stúdentaráðs, um áhyggjur af töfum á ráðningu þriðja sálfræðingsins og eftirfylgni forseta ráðsins, sér í því að nú í haust verði staðan auglýst með þeim skilyrðum að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst eða í janúar 2020. Blaðamaður Stúdentablaðsins spurði þær Özru og Eyrúnu hver næstu skref Stúdentaráðs um stöðu geðheilbrigðismála innan háskólans kynnu að vera. Azra taldi grundvallaratriði að fjölga stöðugildum sálfræðinga og aðgengi að þjónustunni. Eyrún talaði um að því fleiri meðferðarúrræði sem stæðu til boða, því fleiri stúdenta væri hægt að ná til og því fleiri gætu sótt sér þjónustuna. „Svo myndi ég vilja sjá Stúdentaráð beita sér fyrir heilsugæslu á háskólasvæðinu þar sem myndu starfa læknar, skólahjúkrunarfræðingar og sálfræðingar. Þá gætu til dæmis skólahjúkrunarfræðingarnir sinnt forvörnum og verið með snemmbúin inngrip. Það eru svo margir stúdentar sem flytja á höfuðborgarsvæðið og eru ekki með heimilislækni eða sína heilsugæslu. Þá væri frábært ef þeir gætu pantað tíma hjá lækni, skólahjúkrunarfræðingi eða sálfræðingi, jafnvel sjúkraþjálfara hjá heilsugæslu háskólans. Þá væri líka frábært ef tannlæknanemarnir gætu einnig verið með sína aðstöðu þar. Þá væri heildræn heilbrigðisþjónusta fyrir stúdenta. Það er allavegana mín framtíðarsýn.“

Eyrún telur rótina að því að stúdentum líði svona illa eins og fyrrnefndar rannsóknir sýni vera fjölþættur vandi. „Við erum í krefjandi námi. Ofan á það er húsnæðisskortur fyrir stúdenta, við erum að borga allt of háa leigu, meira að segja þeir sem eru á stúdentagörðum eru með íþyngjandi leigu. Við erum að borga meira en 40% af heildartekjum okkar út mánuðinn í húsaleigu þó svo að við séum með fulla framfærslu frá LÍN. En það er vegna þess að full framfærsla hjá LÍN er ekki nægilega mikil og LÍN er ekki að standa sig sem stúdentasjóður. Ef að það væri vilji hjá stjórnvöldum að raunverulega búa þannig um að stúdentar gætu átt gott líf án húsnæðisskorts, án himinhárrar leigu og með almennilegri framfærslu, þá myndu einkenni kvíða, þunglyndis og streitu líklega minnka til muna.“ sagði Eyrún. Þá sagði Azra að tæknilega séð ættu stúdentar ekki að þurfa að leita sér þjónustu ef allt væri bara í lagi: „Þá ættum við ekki að þurfa að leita svona mikið til þessarar þjónustu. Svo er það líka þannig að ef framfærslan frá LÍN væri í raunverulegu samræmi við það sem kostar að búa á Íslandi þá værum við kannski ekki eins ósátt með hvað leigan er há og hversu erfitt það er að vera stúdent á Íslandi.”

Við höfum öll þörf fyrir sálfræðiþjónustu

Þær stöllur voru spurðar að því hvort þær vildu einhverju við bæta í lokin. Eyrún sagði aldursflokkinn 18-25 ára, sem flestir háskólanemar falla undir, vera aldurinn þar sem fólk væri að greinast með geðræn vandamál. „Þess vegna er mikilvægt að það sé þjónusta í okkar nærumhverfi sem grípur okkur en ungt fólk veigrar sér frekar við að leita sér að heilbrigðisþjónustu. Úrræðin í HÍ er að langmestu leyti ókeypis þjónusta og að öllum líkindum hafa flestir háskólanemar not fyrir hana. Ef þeir halda annað þá er allskonar annað í boði, líkt og örnámskeið í prófkvíða og slíkt. Þetta er eitthvað sem við höfum öll þörf fyrir.“ Azra bætti við: „Heilinn okkar er ekki fullþroskaður fyrr en eftir 25 ára aldur þannig við erum á mjög vafasömum tímapunkti til að vera að glíma við mikla streitu, kvíða og þunglyndi. Það hefur margt að segja um mótun okkar til frambúðar. Það er líka mikilvægt að geta létt af sér endrum og eins, þó svo að þú sért ekki endilega að glíma við mikil geðræn vandamál. Stundum þurfum við bara leiðbeiningar og sálfræðingar eru mjög góðir í að vísa okkur veginn.“