„Veni, vidi, vegan“: Veganismi nær nýjum hæðum í Háskóla Íslands

Stúdentablaðið/Marie M. Bierne

Stúdentablaðið/Marie M. Bierne

Þýðing: Sindri Snær Jónsson

Það má segja að veganismi sameini þrjú mikilvæg málefni: Dýravelferð, umhverfismál og heilbrigðan lífsstíl. Undanfarin ár hefur umræðan um þessi mál stigmagnast í samfélaginu og fólk hvaðanæva úr heiminum hefur tileinkað sér breytta lifnaðarhætti veganisma. Sláandi heimildamyndir, herferðir sem snúa að vitundarvakningu og vinsæl átök á borð við „Veganúar“ hafa smám saman gert það að verkum að eftirspurn eftir vegan vöruúrvali hefur aukist verulega. Á Íslandi hefur myndast virkt samfélag grænkera og Facebook-hópurinn „Vegan Ísland“ telur nú yfir 20.000 meðlimi. Þá standa Samtök grænkera á Íslandi fyrir ýmsum viðburðum og fræðslu. Vegan vöruúrval hérlendis hefur aukist svo um munar í matvöruverslunum og veitingastaðir bjóða í auknum mæli upp á vegan rétti. Sumir staðir bjóða jafnvel eingöngu upp á vegan mat, en það má segja að Veganæs á Gauknum sé orðinn sannkallaður griðarstaður grænkera í miðbæ Reykjavíkur. En hvernig er málum háttað hjá vegan stúdentum við Háskóla Íslands? Standa grænkerum til boða ódýrir og næringarríkir kostir á háskólasvæðinu? Blaðamaður Stúdentablaðsins gerði úttekt á vegan vöruúrvali í háskólanum, talaði við vegan nemendur og tók saman nokkur nytsamleg ráð.

Stóraukið úrval í Hámu

Í HÍ eru Háma og Kaffistofur stúdenta án efa vinsælustu staðirnir til að kaupa sér hádegismat, grípa kaffibolla eða splæsa í snarl. Opnunartímar og matseðlar vikunnar eru birtir á heimasíðu Félagsstofnunar stúdenta (fs.is) undir flipanum „Háma og kaffistofur“, en einnig má finna matseðil Hámu á Uglunni. Í haust tók Háma stórt framfaraskref í málefnum grænkera og jók vegan vöruúrval verulega. Nú stendur stúdentum til boða að kaupa heitan vegan rétt eða vegan súpu á hverjum degi og vegan valkostum hefur almennt fjölgað verulega í Hámu. Í októbermánuði 2018 tók þáverandi forseti Stúdentaráðs, Elísabet Brynjarsdóttir, það fram í ávarpi sínu í fyrsta tölublaði Stúdentablaðins að stúdentar væru að „þrýsta á FS að fá meira vegan úrval í Hámu“. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Nú, ári seinna, hefur nýr yfirkokkur tekið til starfa í Hámu og óhætt er að fullyrða að Félagsstofnun stúdenta hafi orðið við kröfum stúdenta. Vörur án dýraafurða eru aðgengilegar bókstaflega alls staðar á háskólasvæðinu. Í Hámu á Háskólatorgi og á salatbarnum er vissulega mesta úrvalið af vegan mat, en þar stendur stúdentum meðal annars til boða að kaupa heita rétti, súpur, samlokur, salöt, drykki og jafnvel vegan súkkulaði. Háma í Tæknigarði og Stakkahlíð bjóða einnig upp á heitan vegan mat og salatbar er að finna bæði í Stakkahlíð og Læknagarði. Þá er er hægt að kaupa vegan samlokur og salöt í Árnagarði, Öskju, Odda, Háskólabíói og Eirbergi, en á þessum stöðum er vegan súpa á matseðlinum að minnsta kosti tvisvar í viku. Einnig má minnast á drykkina frá Saturo sem seldir eru í Hámu. Næringargildi drykkjarins jafngildir heilli máltíð og heldur hungrinu í skefjum í nokkrar klukkustundir. Stúdentablaðið bendir þó á að drykkurinn jafngildir ekki fjölbreyttri fæðu til lengri tíma litið. Sem dæmi um verðlagningu á vegan valkostum í Hámu má nefna að heitur réttur kostar 990 kr., súpa 530 kr., stórt salat á salatbarnum 1.750 kr. en salat úr kælinum 775 kr. Þá kostar vegan samloka frá Hámu 430 kr., Jömm samloka 800 kr. og Saturo-flaskan er seld á 540 kr. 

Að lokum má benda á þá staðreynd að Háma og Kaffistofur stúdenta bjóða upp á jurtamjólk (möndlu-, soja- og/eða haframjólk) alls staðar á háskólasvæðinu. Þetta kemur sér ekki bara vel fyrir grænkera heldur einnig aðra, til dæmis stúdenta með laktósaóþol. Einnig er boðið upp á jurtamjólk í Bókaffi stúdenta sem staðsett er inni í Bóksölu stúdenta, en það er tilvalin staðsetning fyrir notalega lærdómspásu. 

Stúdentablaðið/Marie M. Bierne

Stúdentablaðið/Marie M. Bierne

Vegan háskólanemar

Þegar upp er staðið snýst þetta allt saman um lögmál framboðs og eftirspurnar, svo snúum okkur að þeim hópi sem nýtir sér hið aukna vöruúrval í Hámu hvað mest: vegan stúdentum.

Atli Snær Ásmundsson er nemi í málvísindum og hefur flakkað á milli þess að vera grænmetisæta og vegan í tvör ár. Hann ver flestum dögum sínum í skólanum og borðar því oft hádegismat og kvöldmat á háskólasvæðinu. Sem fastakúnni í Hámu segir Atli að vegan vöruúrval hafi stóraukist síðan hann hóf nám í HÍ fyrir tveimur árum: „Nú er alltaf boðið upp á vegan súpur og rétti. Líka samlokur frá Jömm og nýja vegan samloku frá Hámu.“ Þá tekur Atli það fram að vegan merkingar hafi verið bættar, sérstaklega í Hámu á Háskólatorgi. Hins vegar segir hann að vegan vörurnar seljist oft fljótt upp og um þrjúleytið sé algengt að allar vegan samlokurnar séu búnar. Þá er hægt að rölta niður á Stúdentakjallarann og panta vegan rétt, en Atli segist ekki alltaf hafa tíma eða fjárráð til þess. Aðspurður segist hann helst vilja sjá meira úrval af vegan sætindum og snarli í Hámu, en einnig fleiri vörur sem líkjast mjólkurvörum á borð við jógúrt.

Sólrún Hedda Benedikz er með BA-próf í málvísindum og starfar sem aðstoðarmaður í rannsóknum hjá Málvísindastofnun. Fyrir tólf árum byrjaði hún að minnka dýraafurðir í mataræðinu, en gerðist svo vegan fyrir sex árum í kjölfar laktósaóþols. Hún borðar í Hámu einu sinni til tvisvar í viku og elskar þegar góð súpa er á matseðlinum. Ef svo er ekki fær hún sér yfirleitt salat eða núðlur. Sólrún Hedda tekur undir orð Atla um að vegan úrval hafi aukist verulega í Hámu: „Það er raunverulega meira en einn vegan valkostur í boði hverju sinni“. Hún tekur þó fram að úrvalið mætti vera betra á sumrin.   

Hollráð

Að tileinka sér vegan lífsstíl felur vissulega í sér ákveðna skuldbindingu, en með jákvæðu hugarfari og góðu skipulagi kemst það fljótt upp í vana. Stúdentar hafa hins vegar ekki endilega efni á að kaupa daglega mat í Hámu og stundum gefst hreinlega ekki tími til að bíða í matarröðinni á háannatíma. Einnig kemur fyrir að vegan vörurnar seljist upp í Hámu. Besta lausnin er ódýr og einföld - taktu með þér nesti. Það er lítið mál að útbúa orkuríkt nesti kvöldið áður en getur skipt sköpum til að halda einbeitingu í tímum og á lesstofunni. Blaðamaður tók saman nokkur nytsamleg nestisráð: 

  • Staðgóður morgunverður: Borðaðu staðgóðan morgunmat, til dæmis hafragraut með hnetum og berjum, það getur haldið þér gangandi til hádegis.

  • Afgangar: Eldaðu tvöfaldan skammt af kvöldmat og taktu afganginn með þér í nesti. Víða á háskólasvæðinu eru örbylgjuofnar sem þú getur nýtt þér til að hita matinn upp.

  • Snarl: Snarlið er grundvallaratriði. Það kallar á lærdómspásur og hjálpar líkama og sál að hlaða batteríin. Persónulegt uppáhald undirritaðrar er heimatilbúin hnetublanda með möndlum, heslihnetum, ósöltuðum kasjúhnetum, rúsínum og graskersfræjum. Einnig er hægt að kaupa hnetur í Hámu ef lítill tími gefst fyrir nestisundirbúning.

  • Ávextir: Ávextir eru fullkomið millimál en geta líka nýst sem hollur eftirréttur eða kvöldsnarl. Að sjálfsögðu fást þeir líka í Hámu.

Stúdentablaðið/Marie M. Bierne

Stúdentablaðið/Marie M. Bierne

Hnetur og fræ

Hnetur og fræ eru algjört grundvallaratriði í vegan mataræði. Þau eru mjög prótein- og næringarrík og innihalda trefjar, ómettaðar fitusýrur, magnesíum og vítamín. Hnetur og fræ innihalda hátt magn hitaeininga og eru fullkomið snarl fyrir stúdenta á hlaupum. Þau endast líka lengur en til dæmis orkustangir sem klárast í tveimur bitum. Þá tekur langan tíma að melta hnetur og fræ sem er gott til þess að halda hungrinu í skefjum. Áhugasöm geta lesið meira um töfrana í hnetum og fræjum í greininni „What are the most healthful nuts you can eat?“ á medicalnewstoday.com.

Að því sögðu

Það er ekkert mál að vera vegan í HÍ. Vöruúrval í Hámu hefur aukist verulega og stúdentum stendur til boða að kaupa vegan heitan rétt eða súpu á hverjum degi. Vinsældir vegan réttanna hafa raunar náð slíkum hæðum að þeir eru ekki aðeins vinsælir meðal grænkera heldur allra stúdenta. Í kjölfar vitundarvakningar í samfélaginu kjósa æ fleiri að draga úr neyslu á dýraafurðum og af því leiðir að vegan maturinn er ekki lengur bara fyrir grænkera. Háma á lof skilið fyrir aukið vöruúrval á síðustu misserum og enn eru að bætast nýir valkostir í hillurnar. Í ljósi þess hve margir stúdentar kjósa vegan vörur fram yfir aðrar er ljóst að Háma verður að hafa sig alla við til að anna eftirspurninni.

Frekari upplýsingar

Blaðamaður Stúdentablaðsins tók saman lista yfir nokkrar bækur, vefsíður og öpp fyrir áhugasama stúdenta sem vilja fræðast meira um veganisma. Þar er til dæmis að finna upplýsingar um dýraafurðalausan lífsstíl og uppskriftir fyrir grænkera. Allar bækurnar á listanum eru til í Bóksölu stúdenta.

·      M. Evans, On Eating Meat (3295 kr.)

·      S. Romine, How To Go Meat Free (1895 kr.)

·      E. Hollingsworth, Vegan Treats (3195 kr.)

·      Facebook: Vegan Ísland, The Vegan Society, Vegan Samtökin

·      Tumblr: Veganonthecheap

·      Instagram: @bestofvegan, @vegan

·      Apps: Veganized, HappyCow, Vegan Iceland