Hvað gerir þú til að láta þér líða vel?

Ég hef hugsað mikið um það undanfarið, sérstaklega á annasömum tíma, hvað það er mikilvægt að finna eitthvað sem lætur mér líða vel. Hvort sem það er mikil streita og álagstími eða þér líður kannski ekki alveg nægilega vel er mikilvægt að finna leiðir til að breyta því. Ég er sjálf alltaf að reyna að finna bestu leiðina fyrir mig til að kjarna mig og líða vel þegar ég finn fyrir vanlíðan eða tilfinningalegri lægð. Í ljósi þess ákvað ég að spyrja nokkra vini mína út í það hvað þeim finnst gott að gera til að láta sér líða vel. 

Ljósmynd/Tinna Líf Jörgensdóttir

Ljósmynd/Tinna Líf Jörgensdóttir

Embla Dís Haraldsdóttir, hjúkrunarfræði:

Sund

„Það sem lætur mér líða vel er að fara í sund. Mér finnst ég hvergi annars staðar geta kúplað mig bara frá öllu. Sérstaklega þar sem þú getur ekki verið með símann með þér og þú ert eiginlega bara að chilla þegar þú ferð í sund. Það er fátt annað sem er hægt að gera. Þá er Lágafellslaugin í Mosfellsbæ í miklu uppáhaldi. Svo finnst mér líka rosa gott að fara með vinkonum í sund, við eigum örugglega bestu spjöllin okkar í pottinum!“

Ljósmynd/Katla Ársælsdóttir

Ljósmynd/Katla Ársælsdóttir

Vala Fanney Ívarsdóttir, bókmenntafræði:

Dans

„Að líða vel fyrir mér þýðir yfirleitt að vera kát og hress en ég hef komist að því að hreyfing er góð leið til þess að líða einmitt þannig. Stundum er gott að fara í göngutúr en nýlega er ég búin að vera að vinna með að spila Robyn til þess að peppa mig inn í daginn, svo fer svokallaður nærbuxnadans yfirleitt fram á morgnana. Hins vegar er Robyn viðeigandi til spilunar allan daginn þannig ef ég þarf meira pepp seinnipartinn set ég hana í gang líka (þá er samt sko spurning hvort að ég sé á nærbuxum eða ekki... örugglega samt). Robyn bara skilur mann held ég að sé aðal ástæðan fyrir því að hún sé að verða fyrir valinu þessa daganna. Tónlistin er peppuð og hress, textinn getur verið svolítið gloomy (that’s life baby) en auðvelt er að syngja með sem er mikilvægur þáttur í þessu ferli. Mín uppáhalds Robyn lög til að dansa við eru Cobrastyle og Call Your Girlfriend en Dancing On My Own er alltaf klassískt. Vinkona mín er með playlista á Spotify sem heitir Mín Robba og mér finnst hann frábær. Þar er að finna öll bestu Robyn lögin - Mæli með!“

Ljósmynd/Stefanía Stefánsdóttir

Ljósmynd/Stefanía Stefánsdóttir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir, stjórnmálafræði:

Þrif

„Það er ákveðin hugleiðing fyrir mig að þrífa. Ég elska að vaska upp, veit ekki alveg hvers vegna en mér finnst það mjög huggulegt. Mér finnst líka gott að skipta á rúmunum.  Mér finnst það líka hafa töluverð áhrif á líðan mína að hafa hreint í kringum mig. Ég finn það bara svo vel hvað mér líður betur að hafa hreint heima hjá mér og þurfa ekki að kvíða því að allt sé í drasli þegar ég kem heim eftir langan dag. Svo finnst mér alltaf mjög gott að fara út í göngutúr, fá frískt loft og hreyfa mig aðeins.“

Ljósmynd/Stefanía Stefánsdóttir

Ljósmynd/Stefanía Stefánsdóttir

 Róbert Ingi Ragnarsson, stjórnmálafræði:

Vinir

„Vinir mínir eru mjög góðir í að hlusta á mig ef mér líður illa. Ég veit líka að ég get alltaf treyst því að þeir reyni að gera sitt besta til að hjálpa mér. Svo finnst mér þeir/þau líka svo ótrúlega skemmtileg og þykir gaman að vera í kringum þau.“

Ljósmynd/Stefanía Stefánsdóttir

Ljósmynd/Stefanía Stefánsdóttir

 Baldvin Flóki Bjarnason, heimspeki:

Meðvitund um eigin tilfinningar

„Ég hreyfi mig reglulega, ég finn mikinn mun á mér ef það líður of langt á milli æfinga. Ég fer mjög oft í sund til þess að slaka á, það er fátt betra en að kúpla sig út með kvöldsundi. Ég umgengst fólk sem mér þykir vænt um og sem þykir vænt um mig. Ég reyni að passa upp á svefn og mér hefur líka fundist hjálpa að draga úr sykurneyslu. Annars reyni ég líka bara að muna að vanlíðan á sér oft ósköp einfalda ástæðu, það kannast flestir við angistina sem getur fylgt þynnku til dæmis. Mér finnst líka gott að vera meðvitaður um hvernig mér líður og muna að vanlíðan líður hjá. Ef ég upplifi tímabil þar sem vanlíðan er fyrirferðarmikil þá veit ég að ég þarf að breyta einhverju eða leita mér hjálpar.“

Ljósmynd/Katla Ársælsdóttir

Ljósmynd/Katla Ársælsdóttir

Ingvar Þóroddsson, rafmagns- og tölvuverkfræði:

Fæ mér kaffi og hlusta á Nýdönsk

„Ég hef ávallt verið mikill unnandi íslenskrar dægurlagatónlistar og er Nýdönsk að mínu mati þar í fararbroddi og hefur lengi verið mín uppáhalds íslenska hljómsveit. Lögin þeirra bera mörg með sér mikið “good feel” og eru þeir ekkert alltof mikið að flækja málin í viðfangsefni textans, bara ligeglad og skemmtilegt, ástin og djammið. Helsta undantekningin frá því er líklegast lagið Svefninn laðarsem fjallar um dauðann. Þá að kaffinu. Það er mér lífsnauðsynlegt, kemur mér í gegnum daginn og veginn og veitir mér mikla hamingju. Ég tek þetta gjarnan saman, og þá allra helst á morgnana þegar ég hef góðan tíma til að fá mér morgunmat og kaffi. Ég hendi þá oft Nýdönsk á fóninn, þá helst þessi fyrrnefndu “good feels” lög á við Flugvélar, Nunang, Nostradamus, Frelsið og Horfðu til himins. Og fer þá inn í daginn fullur af nýdanskri núvitund.“