Fengu 400.000 krónur í umslagi

Sóley fræðslustýra Hugrúnar, Kristín Hulda formaður Hugrúnar og Róshildur fulltrúi grunnnema í sálfræðinámi með umslagið frá Margréti. Ljósmynd/Hugrún

Sóley fræðslustýra Hugrúnar, Kristín Hulda formaður Hugrúnar og Róshildur fulltrúi grunnnema í sálfræðinámi með umslagið frá Margréti. Ljósmynd/Hugrún

Hugrún, geðfræðslufélag sem stofnað var af hópi háskólanema árið 2016, fékk nýverið afhentar 400.000 krónur í umslagi frá Margréti Jónsdóttur. Peningurinn er styrkur til félagsins sem safnaðist í sjötugsafmæli Margrétar. ,,Hún afþakkaði allar afmælisgjafir en óskaði þess í stað eftir því að áhugasamir myndu styrkja Hugrúnu. Allir meðlimir Hugrúnar eru sjálfboðaliðar og félagið er eingöngu rekið á styrkjum, því skipta styrkir líkt og þessi starfsemi félagsins gríðarlegu máli,” segir í tilkynningu frá Hugrúnu.

Kristín Hulda Gísladóttir, formaður Hugrúnar, segir að félagið hafi aldrei fengið svo stóran styrk frá einstaklingi. ,,Það hefur aldrei neinn styrkt okkur með þessum hætti áður en við höfum samt fengið mjög mikið af styrkjum frá einstaklingum, þó aldrei svona stóran.”

Afþakkar afmælisgjafir en styrkir geðrækt

Samkvæmt Kristínu hefur Margrét lengi afþakkað afmælisgjafir og valið félag til að styrkja í staðinn. ,,Í gegnum árin hefur það oft verið félagið Geðhjálp, sem er líka félag tengt geðheilsu. Í ár benti Brynhildur Kristín Ásgeirsdóttir, fyrsta árs læknanemi og barnabarn Margrétar, henni á Hugrúnu.”

Kristín segir að styrkurinn muni nýtast Hugrúnu mjög vel en helsta styrktarsöfnun Hugrúnar fer fram á sumrin þegar þau í félaginu og velunnarar halda fjáröflunarbingó og taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu.

,,Félagið er eingöngu rekið á styrkjum og þarf töluvert fjármagn til að ná að halda sem flesta fræðslufyrirlestra. Þennan styrk munum við bæði nota í verkefni sem við erum í síðar á önninni sem miðar að því að ná geðfræðslu til ungmenna í gegnum samfélagsmiðla sem og í almenna starfsemi félagsins, þá helst ferðakostnað í framhaldsskóla úti á landi.”

Síðastliðið haust undirbjó Hugrún svokallaða fræðara til þess að fara í framhaldsskóla landsins og fræða nemendur um geðheilsu. Nú eru um það bil 80 fræðarar skráðir hjá félaginu. Aðspurð segir Kristín fræðsluna ganga vonum framar. ,,Við einblíndum á fjölbrautaskóla fyrir áramót og verðum meira í skólum með bekkjarkerfi núna til að vinna á móti hærra brottfalli í fjölbrautaskólum. Í næstu vikum förum við til dæmis í alla fjórðu bekki í MR og flytjum geðfræðslufyrirlestra. “

Hér má sjá stórarn hluta af fræðurum Hugrúnar sem fara í framhaldsskóla landsins og fræða ungmenni um geðheilsu, geðsjúkdóma og úrræði sem standa þeim til boða. Ljósmynd/Hugrún

Hér má sjá stórarn hluta af fræðurum Hugrúnar sem fara í framhaldsskóla landsins og fræða ungmenni um geðheilsu, geðsjúkdóma og úrræði sem standa þeim til boða. Ljósmynd/Hugrún

Laugardaginn 19. janúar verður haldinn þjálfunardagur fyrir fræðara þar sem áhugasömum háskólanemum gefst tækifæri til að læra að flytja fyrirlesturinn og gerast fræðarar fyrir Hugrúnu. Frekari upplýsingar um það má finna á Fésbókarsíðu Hugrúnar Geðfræðslufélags, https://www.facebook.com/gedfraedsla/.