„Mikilvægt að ungt fólki taki upplýstar ákvarðanir í sambandi við fjármál“

Emil Dagsson, meistaranemi í fjármálahagfræði, er einn stofnandi og formaður Fjárráðs. Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir

Emil Dagsson, meistaranemi í fjármálahagfræði, er einn stofnandi og formaður Fjárráðs. Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir

„Fjárráður - félag um fjármálalæsi“ er nýtt félag sem hyggst fræða ungt fólk um fjármál. Emil Dagsson, mastersnemi í fjármálahagfræði, einn stofnandi og formaður félagsins var fenginn til að ræða við Stúdentablaðið um Fjárráð. Hann telur að fólk sem er að taka sínar fyrstu stóru fjármálaákvarðanir vanti oft grundvallarþekkingu á fjármálaumhverfinu á Íslandi og því sé mikilvægt að til sé félag eins og Fjárráður.

„Fjárráður er félag sem var stofnað af fólki í háskólanum og hugmyndin á bak við félagið er að vera með jafningjafræðslu um fjármál og fjármálalæsi. Markmiðið er að efla fjármálalæsi háskólanema,‘‘ segir Emil en bætir við að þetta sé aðeins byrjunarmarkmiðið og að þau vonist til þess að geta frætt nemendur á yngri menntastigum í framtíðinni. Félagið er nýstofnað og er enn að móta sín fyrstu skref.

Um þessar mundir er stjórnin að sækja um styrki og skipuleggja starfsemina. Fyrstu verkefni félagsins verða að halda fræðslukvöld og Emil vonast til þess að þau fari í gang eftir áramót. Aðrar hugmyndir sem hafa komið upp snúa að því að bjóða upp á einstaklingsfræðslu og að hafa aðgengilegt fræðsluefni á vefnum.

Hann segir að hugmyndin hafi komið upphaflega frá Nönnu Hermannsdóttur fyrir nokkru síðan, en hún er varaformaður félagsins. Síðan hafi umræða og áhugi skapast og nokkrir háskólanemar slegið til og stofnað félagið. Emil segir að þau hafi fundið fyrir að það vantaði aðgengilegt fræðsluefni fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu stóru skref í sambandi við fjármál, til dæmis íbúðakaup.

„Í rauninni er það frekar magnað þegar maður heyrir frá jafnöldrum sínum, eða jafnvel lendir sjálfur í því, að það er búist við því að fólk skilji allt tengt fjármálum. Maður er kannski búinn með háskólanám, orðinn „fullorðinn“ og þá á maður bara að skilja fjármál, þótt enginn hafi nokkurn tímann kennt manni þessa hluti. Þetta getur verið ýmislegt eins og hvernig lífeyrisgreiðslur virka, hvað verðtrygging og verðbólga er og svo framvegis,“ segir Emil. Hann bendir á að hér á landi sé mjög algengt að fólk taki verðtryggð lán en viti  í raun og veru ekki hvað það þýðir og við hverju á að búast.

Emil ráðleggur háskólanemum að kynna sér vel hvað felist í verðtryggðum lánum, sérstaklega í ljósi þess að Ísland sé svokallað „verðtryggt land,“ en hér á landi eru verðtryggð lán algeng og verðtrygging mikið í umræðunni. „Þó að það sé ákveðin gulrót að verðtryggð lán beri með sér lægri vexti þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að fjármálaumhverfið skiptir máli, og að maður ber kostnaðinn ef það kemur snörp verðbólga,“ segir Emil. Fjárráður ætlar að einblína á háskólanema til að byrja með því það er einmitt fólkið sem er að huga að sínum fyrstu mikilvægu fjármálaákvörðunum, til dæmis hvað varðar námslán eða húsnæðislán. Emil segir að það sé mikilvægt að taka vel ígrundaðar ákvarðanir. „Ef fólk lendir í vanskilum eða eitthvað slíkt þegar það er ungt, getur það haft slæm áhrif seinna meir,“ segir Emil, en Fjárráður hyggst einnig fræða fólk sem lendir í slíkum vandræðum.

Hægt er að kynna sér Fjárráð á Facebook en þar er bæði umræðuhópur og like-síða.