„Með öllu óásættanlegt“

Ljósmynd/Félagsstofnun stúdenta

Ljósmynd/Félagsstofnun stúdenta

Engin niðurstaða virðist liggja fyrir hvað varðar byggingu stúdentaíbúða á reit Gamla garðs þrátt fyrir ítrekuð loforð Háskóla Íslands og þrátt fyrir það að Reykjavíkurborg, Vísindagarðar og Háskóli Íslands hafi undirritað samkomulag sem var meðal annars þess efnis í mars árið 2016. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stúdentaráði Háskóla Íslands, SHÍ.

Í dag, fimmtudaginn fyrsta nóvember, efnir SHÍ til friðsælla mótmæla á rektorsgangi á milli eitt og fjögur, á meðan fundur Háskólaráðs á sér stað. Á fundinum á að að fjalla um reit Gamla Garðs og byggingu stúdentaíbúða á reitnum.

„Skiptar skoðanir eru á ásýnd og fegurðarmati byggingarinnar sem þar mun rísa, sem hefur þó dregið alla vinnu langt umfram eðlileg tímamörk og eftir sitja stúdentar í húsnæðisvanda,“ segir í tilkynningunni. „Nú verður rætt um eitt mikilvægasta hagsmunamál stúdenta í háskólaráði. Stúdentar hafa í því ljósi ákveðið að fylla rektorsgang fyrir fund og á meðan fundi stendur og krefjast svara í lok fundar.“

Skýr krafa stúdenta

Krafa stúdenta er sú að „skýr tímalína verði sett vegna byggingar við Gamla Garð á fundi háskólaráðs 1. nóvember og að niðurstaða af hálfu Háskólans um endanlegt deiliskipulag liggi fyrir í síðasta lagi fyrir áramót.“

Stúdentaráð bendir á að það sé „með öllu óásættanlegt að stúdentar séu látnir bíða eftir jafn mikilvægum hlut og húsnæði.“

Nauðsynlegt að ráðast að rót vandans

Í tilkynningunni er sömuleiðis greint frá því hversu alvarlegt mál það sé að stúdentar lifi við húsnæðisskort, tengsl milli óöryggis á húsnæðismarkaði og kvíða og þunglyndis séu mikil, nemar sem koma af landsbyggðinni og erlendis frá þurfi nauðsynlega aðgengi að leiguhúsnæði og sömuleiðis þeir nemendur sem búa við slæmar heimilisaðstæður.

„Fjöldi stúdentaíbúða heldur hins vegar engan veginn í við eftirspurn og fjöldi nemenda hefur þurft að hætta við nám við Háskóla Íslands vegna skorts á húsnæði. Því er það forgangsatriði í baráttu stúdenta að húsnæði fyrir stúdenta verði byggt á og í nálægð við háskólasvæðið.

Í dag er fjöldi stúdentaíbúða á vegum Félagsstofnunar stúdenta um 1.200. Um 9% nemenda við Háskóla Íslands fá því aðgang að stúdentaíbúðum.

Óöryggi í húsnæðismálum getur haft gífurleg áhrif á andlega líðan og geðheilsu. Undanfarið hefur hávær umræða verið um betri stuðning við stúdenta vegna andlegrar líðan og í því verki hefur Háskóli Íslands fjölgað stöðugildum sálfræðinga og fjölgað úrræðum. Það þarf þó einnig að horfast í augu við rót vandans,“ segir í tilkynningunni.