Tanngreiningar til ákvörðunar á aldri: hvað er það og hvernig tengist Háskóli Íslands þeim?

Mynd 1 Myndatexti..png

Á síðasta skólaári bar nokkuð á umræðum um tanngreiningar sem Háskóli Íslands átti aðild að. Ýmsir fjölmiðlar fjölluðu um aldursgreiningar á hælisleitendum, mótmæli voru krotuð utan á byggingar Háskóla Íslands og fyrsta árs nemar í læknisfræði tóku málið fyrir í árshátíðarmyndbandi sínu. En hvaða rannsóknir eru þetta og hvernig tengjast þær Háskóla Íslands?

Tanngreiningar – Líkamsrannsóknir á ungum hælisleitendum

Samkvæmt UNHCR (Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna) er talið að u.þ.b. 68,5 milljónir manns séu á flótta, hrakin frá heimilum sínum. 85% þessa fólks hefst við í þróunarlöndum. Hluti af þeim 15% sem eftir eru hafa komið sér til Evrópu og sótt um vernd og dvalarleyfi. Fylgdarlaus börn eiga meiri líkur á að fá dvalarleyfi og mál þeirra ætti alltaf að vera tekið efnislega fyrir, enda segir í 3. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að „allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.“

Flest Evrópuríki, að frátöldum Þýskalandi og Svíþjóð, hafa veigrað sér við að veita fólki á flótta dvalarleyfi og verið með mjög strangt landamæraeftirlit, annaðhvort í formi hárrar neitunartíðni og kerfislægs ofbeldis eða með gaddavírsgirðingum og kylfum. Þegar kemur að fylgdarlausum ungmennum sem segjast vera yngri en 18 ára hafa yfirvöld ýmissa Evrópulanda gripið til þeirra ráða að beita líkamsrannsóknum til að ákvarða aldur þeirra. Þessum ungmennum er tilkynnt að þeim sé ekki trúað varðandi uppgefinn aldur og eru beðin að gangast undir ýmiskonar líkamsrannsóknir, má þar nefna skoðun á þroska kynfæra, handa, hnjáskelja og tanna. Ísland hefur passað að missa ekki af lestinni hvað varðar líkamsrannsóknir á ungum hælisleitendum og hefur beitt rannsóknum á þroska endajaxla til að segja til um hvort tiltekið ungmenni sé eldra eða yngra en 18 ára. Slíkar rannsóknir eru kallaðar tanngreiningar.

Gagnrýni á tanngreiningar – Vísindalega ónákvæmar, siðferðislega rangar

Ýmis hjálpar- og mannréttindasamtök hafa gagnrýnt aldursgreiningar byggðar á líkamsrannsóknum. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðið og Rauði krossinn hafa öll gagnrýnt slíkar greiningar og eru tanngreiningar ekki undanskildar. Þá tala þessi samtök fyrir heildstæðu mati á aldri ungra hælisleitenda sem byggir ekki einungis á líkamsrannsóknum heldur ætti fyrst og fremst að byggja á faglegu mati barnasálfræðinga og –lækna, og taka þyrfti fullt tillit til umhverfis- og menningarlegra aðstæðna ungmennanna. Lögfræðingar Rauða Krossins, sem eru talsmenn hælisleitenda hérlendis, segja Útlendingastofnun byggja aldursgreininguna ekki á neinu öðru en niðurstöðum tanngreininganna.

Það eru ekki einungis mannréttinda- og hjálparsamtök sem hafa gagnrýnt tanngreiningar. Í fræðasamfélaginu eru tanngreiningar einnig mjög umdeildar, bæði vegna siðferðislegra þátta og vísindalegrar ónákvæmni. Læknafélag Þýskalands, Doctors of the World og Tannlæknafélag Bretlands (BDA) eru á meðal samtaka sem hafa lýst tanngreiningum og öðrum líkamsrannsóknum sem beitt er á unga hælisleitendur sem óáreiðanlegum og siðferðislega röngum.

Doctors of the World benda meðal annars á þá almennu siðareglu í heilbrigðisgreinum að láta einstaklinga ekki undirgangast aðgerðir sem geta verið þeim skaðlegar að ástæðulausu, þ.e.a.s. hrjái ekkert líkamlegt eða andlegt einstaklinginn. Gengið er út frá því að öll jónandi geislun geti haft skaðleg áhrif á líkamsvefi og því er ávallt miðað við að engin röntgenrannsókn sé gerð nema læknir hafi metið rannsóknina nauðsynlega. Hvers vegna ættu líkamar hælisleitanda að vera undantekning?

Varðandi ónákvæmni rannsóknanna segja sjálfir sérfræðingarnir sem framkvæmt hafa rannsóknirnar við Háskóla Íslands að skekkjumörk tanngreininga séu 1,4 ár, samtals tæp þrjú ár. Í maí 2018 kom svo út skýrsla um rannsókn eftir sænska sérfræðinga við Háskólana í Uppsölum og Gautaborg. Þar kemur fram að á árunum 2014-2015 má gera ráð fyrir því að 10-30% niðurstaðna aldursgreininga í Svíþjóð, sem byggja á tanngreiningum og hnjáliðaþroska, hafi verið rangar og aldur einstaklinga metinn of hár.

Þar sem Útlendingastofnun byggir aldursgreiningu nær einungis á niðurstöðum tanngreininganna gefur augaleið að rannsóknirnar hafa afgerandi áhrif á framvindu mála og afdrif ungra hælisleitenda sem sækja um vernd hérlendis. Sé viðkomandi dæmdur eldri en 18 ára missir sá eða sú öll réttindi sín sem barn. Hérlendis hefur barn verið ranglega dæmt fullorðið út frá tanngreiningu, en það var staðfest eftir að barnið framvísaði skilríkjum sem yfirvöld töldu ófölsuð. Stundin fjallaði um málið og það var þá sem athyglin beindist að Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands – aðkoma og ávinningur

Tanngreiningar á ungum hælisleitendum eru framkvæmdar í aðstöðu Háskóla Íslands, af sérfræðingum sem starfa við skólann. Niðurstöður tanngreininganna eru birtar á bréfsefni skólans og stimplaðar af Tannlæknadeild Háskóla Íslands.

Frá árinu 2014 til ársloka 2017 fóru þessar rannsóknir fram við Háskóla Íslands. Eftir að nokkrir einstaklingar biðluðu til Vísindasiðanefndar Háskólans að taka málið fyrir kom í ljós að nefndin gæti ekki tekið málið fyrir, þar sem enginn formlegur samningur væri til staðar á milli Háskólans og Útlendingastofnunar um rannsóknirnar. Í október 2017 hafði Útlendingastofnun greitt allt að þrjár milljónir fyrir þjónustuna þrátt fyrir að enginn samningur væri til staðar. Það þýðir að í 4 ár voru afar umdeildar rannsóknir stundaðar gegn greiðslu við Háskóla Íslands án þess að neitt skýrt regluverk eða eftirlit væri í kringum framkvæmdina. Stjórnendur skólans hafa ekki enn fengist til að segja til um hvert þessar þrjár milljónir runnu, hvort þeim var beint í vasa sérfræðinganna sem framkvæmdu rannsóknirnar, til Tannlæknadeildarinnar eða til Háskólans. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi þurft að gangast við ábyrgð á þeim rannsóknum sem gerðar voru í tómarúmi Tannlæknadeildar Háskóla Íslands.

Ætla mætti að eftir að stjórnendum Háskólans var gert vart um þessar rannsóknir og búið var að gera ítarlega grein fyrir áhyggjum og gagnrýni ýmissa virtra lækna-, mannréttinda- og hjálparsamtaka, myndu stjórnendur íhuga málið gaumgæfilega áður en frekari ákvarðanir yrðu teknar. Eðlilegt væri að nýta þá þverfaglegu þekkingu sem ýmsir sérfræðingar skólans búa yfir um málaflokkinn til að taka ákvörðun um næstu skref. Slíkt var ekki gert og hófust stjórnendur Háskólans handa við að gera drög að samningi. Aðspurður hvort Háskóli Íslands hafi skipað sérfræðihóp í verkið eða leitað álits hjá fræðafólki sem starfar við skólann og sérhæfir sig í málefnum tengdu efninu, svarar rektor nei.

Þó sagði rektor: „Þegar drög að hinu mögulega samkomulagi liggja fyrir verður þess óskað að vísindasiðanefnd og jafnréttisnefnd fari yfir þau. Að því búnu verður tekin ákvörðun um framhaldið.“

Auðveldlega má færa rök fyrir því að framkvæmd tanngreininga gangi þvert á Vísindasiðareglur HÍ og ber þá fyrst og fremst að nefna regluna um upplýst samþykki. Í grein 2.4.1. segir að upplýst samþykki feli í sér að „þátttakendur skulu taka afstöðu án utanaðkomandi þrýstings eða þvingana“.  Í skjalinu sem Útlendingastofnun biður hælisleitendur að undirrita áður en þau undirgangast tanngreiningu stendur:

„Heimilt er að neita því að gangast undir aldursgreiningu en neiti umsækjandi að gangast undir aldursgreiningu án fullnægjandi ástæðu getur það haft áhrif á trúverðugleika umsækjanda auk þess sem það getur orðið til þess að umsækjandi verði metinn fullorðinn.“

Sem sagt: neiti hælisleitandi að undirgangast tanngreiningu tekur Útlendingastofnun viðkomandi sem fullorðnum og afgreiðir málið sem slíkt. Við það missir viðkomandi öll þau réttindi sem börn hafa samkvæmt íslenskum og alþjóðlegum lögum og sáttmálum, án þess að nokkuð aldursmat hafi farið fram. Ljóst er því að hér er um afarkosti að ræða. Það að rektor haldi því staðfast fram að hælisleitendur hafi frjálst val um að undirgangast tanngreiningu má því teljast undarlegt og sýnir gífurlegan skort á skilningi um stöðu ungra hælisleitanda, sem eru einstaklega viðkvæmur hópur.

Með eða á móti viðkvæmasta hópi samfélagsins?

Ástæða þess að athygli mín beindist að tanngreiningum er sú að vini mínum, sem er flóttamaður frá Afganistan, var neitað um dvalarleyfi á grundvelli niðurstaðna tanngreininga. Þegar hann fékk brottvísunartilkynningu hóf hann hungurverkfall. Hann sagði mér að honum væri sama hvort hann myndi deyja hér eða í Afganistan. Hann var í hungurverkfalli í 41 dag og var nær dauða en lífi þegar Útlendingastofnun snéri ákvörðun sinni við eftir fjölda bréfa frá læknum og sálfræðingum.

Hælisleitendur eru sá samfélagshópur á Íslandi sem oftast fer í hungurverkfall, en hungurverkföll eru yfirleitt vopn fanga. Það að hælisleitendur finni sig knúna til að fara í hungurverkfall og hætta lífi sínu í leiðinni segir sitthvað um stöðu þeirra í samfélaginu og það takmarkaða frelsi sem þeir búa við. Vonandi taka ráðamenn Háskóla Íslands, með stjórnendur Heilbrigðisvísindasviðs og Tannlæknadeildar í fararbroddi, þennan raunveruleika með inn í myndina áður en þau halda því endanlega fram að hælisleitendur gangist frjálsir og óþvingaðir undir líkamsrannsóknir á vegum stofnunarinnar og áður en Háskóli Íslands ákveður að ganga í viðskiptasamband um líf ungs fólks á flótta.

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur tekið eindregna afstöðu gegn því að Háskólinn stundi tanngreiningar fyrir Útlendingastofnun og bætist með því í hóp þeirra sem standa vörð um vísindaleg og siðferðisleg heilindi Háskólans. Ég hvet aðra í Háskólanum, einstaka nemendur og nemendafélög, til að gera slíkt hið sama og láta skólayfirvöld þannig vita að við viljum vera hluti af háskólasamfélagi sem stendur með viðkvæmustu hópum samfélagsins, ekki á móti þeim.

*Fyrir nánari upplýsingar og heimildir er hægt að hafa samband við höfund í gegnum tölvupóstfangið eho5@hi.is